Tryggjum öryggi kattanna okkar yfir jólin

Mörg erum við farin að hlakka til jólanna; fá góðan mat, skiptast á pökkum, hitta fjölskyldu og vini og hafa gaman. En hvað getum við gert til þess að kettirnir okkar njóti þessa tíma líka? Því fyrir marga ketti er þetta frekar tími kvíða og stress, og ýmsar hættur leynast hér og þar.

Jólatréð

Flestar tegundir jólatrjáa hafa væg eitrunaráhrif en ef nálarnar á trjánum eru tuggðar getur það valdið uppþembu og geta þeir fegið upp- eða niðurgang. Reynið því að forðast tré sem hrynur mikið af. Þegar jólatréð er síðan komið upp, munið að vökva tréð reglulega svo síður detti af því og ryksugið einnig reglulega í kringum það. Reynið að forðast síðan að leyfa kettinum að vera án eftirlits í kringum jólatréð. Best væri auðvitað að vera með gervitré, en einnig þarf þó að passa að kötturinn tyggji heldur ekki greinarnar á gervitrénu.

Forðist að nota gervisnjó sem kemur í spreybrúsa því það er eitrað fyrir ketti.

Jólaseríur

Ef kötturinn þinn er mjög forvitinn eða duglegur að tyggja snúrur á heimilinu þarf að fara mjög varlega með seríurnar líka. Farið vel yfir þær og athugið hvort búið sé að naga þær einhvers staðar inn að vír. Kötturinn gæti fengið rafstuð við að naga slíka seríu, fengið skurði á tunguna, eða það gæti einfaldlega leitt til dauða.

Kertaljós

Best er að staðsetja kertin einhversstaðar þar sem kötturinn nær ekki til. Kötturinn gæti ekki bara brennt sjálfan sig, heldur gæti hann auðveldlega hent kertinu um koll og kveikt í. Einnig gæti hann gæti hann brennt loppurnar á heitu kertavaxinu.

Passið að fara aldrei frá logandi kerti.

Sniðugt er að vera með einskonar lukt undir kertin sem hægt er að loka eða einfaldlega að vera með gervikerti sem ganga fyrir batteríum svo kötturinn geti ekki farið sér að voða.

Jólablóm

Þó að fæstir kettir nagi eða éta eitruð blóm eins og kristþyrni, jólastjörnu, liljur eða mistiltein þá gæti það þó gerst að feldurinn þeirra strýkst upp við blómin og eitthvað fellur á hann. Kötturinn sleikir svo feldinn og fær eitrun frá blómunum. Reynið því að halda öllum slíkum blómum frá kettinum.

Jólaskraut

Forvitnir kettir eiga eftir að verða enn forvitnari þegar jólaskrautið er sett á jólatréð. Þrátt fyrir að slaufur, borðar og glitrandi lengjur séu í sjálfu sér ekki eitraðar, þá geta þær verið stórhættulegar þegar kötturinn fer að naga þær. Það getur valdið köfnun eða ef kötturinn nær að borða skrautið getur það valdið skaða í görnunum sem getur leitt til dauða. Ef grunur liggur á að kötturinn hafi borðað slíkt skal hafa samband strax við dýralækni.

Jólakúlurnar eru einstaklega heillandi fyrir ketti,það glampar á þær og þær hreyfast auðveldlega til og frá á trénu. Ef kötturinn nær að henda slíkri kúlu í gólfið, gæti hún brotnað og kötturinn skorið sig á henni eða ef hann myndi ná að éta eitt brot gæti það valdið köfnun eða skaðað meltingarveginn. Reynið því að hengja kúlurnar frekar ofarlega á tréð svo kötturinn komist ekki í þær eða festið þær vel á tréð, til dæmis með vír, svo ekki sé hægt að slá þær niður.

Batterí

Á þessum árstíma er ekki óalgengt að dýr, þó sérstaklega hundar, gleypi batterí. Það hefur þó komið fyrir að kettir hafi náð að gleypa batterí líka. Ef bitið er í batterí getur það valdið eiturefnabruna eða þungamálma eitrun. Öll batterí eru eitruð fyrir dýr, þannig ef þig grunar að kötturinn þinn hafi hugsanlega gleypt batterí ættir þú að hafa samband strax við dýralækni.

Jólaboð og veislur

Köttum líður best í ró og næði, því þarf að huga að því að þeir hafi athvarf til að fara í þegar kemur að því að bjóða í veislu. Öll lætin sem fylgja svona veislum, opnun á kampavínsflöskum, hávaði í fólki, krakkar að hlaupa og svo framvegins, gera köttinn stressaðann og kvíðinn og hann vill koma sér undan. Þá er gott að kötturinn geti verið í næði í lokuðu herbergi þar sem hann getur falið sig meðan lætin standa yfir. Gott ráð er að kaupa lyktarfermón sem stungið er í rafmagnsinnstungu en við það dreifast fermónin um rýmið. Þessi efni draga úr streitu og kvíða.

Jólamatur

Súkkulaði er mjög eitrað fyrir ketti, en það inniheldur efni sem kallast theobromine og er það til staðar í kakóbauninni. Því dekkra sem súkkulaðið er, því eitraðra er það fyrir köttinn. Köttur sem hefur innbyrt súkkulaði getur átt von á öndunarerfiðleikum, vöðva skjálfta og krampa og ætti að leita strax til dýralæknis.

Vínber og rúsínur sem finnast í mörgum jólakökum eru líka eitruð fyrir ketti og getur valdið nýrnabilun.

Laukur og hvítlaukur eru eitraðir fyrir ketti en þeir innihalda efnasambönd sem eyða rauðum blóðfrumum katta.

Varast ætti líka að kettir komist í hentur og blámygluost.

Ekki gefa kettinum heldur af hátíðarmatnum ykkar. Kettir eru með mjög næman meltingarveg og fer mjög feitur og saltur matur illa í magann. Það veldur meltingartruflunum og fá þeir annað hvort upp- eða niðurgang.

Ef ykkur langar að gleðja köttinn ykkar á jólunum skulu þið frekar gefa honum uppáhalds matinn sinn, hvort sem það er blautmatur, soðinn fiskur eða annað, heldur en að leyfa honum að smakka á matnum ykkar.

Og ef kötturinn ætti að fá einhverja gjöf væri eflaust mjög spennandi að pakka inn nokkrum harðfiskbitum. Passið bara að hann éti ekki pappírinn eða krulluböndin!

Gleðilega hátíð!

 

Soja K. Steiner, Christmas and winter safety, Catworld, desember 2014.
Þýtt og endursagt: Jóna Dögg Sveinbjörnsdóttir