Húsköttur á sýningu

Húskötturinn Pjakkur Húskötturinn Pjakkur

Þú þarft ekki að eiga hreinræktaðan kött eða vera kattaræktandi til að taka þátt í fjörinu á sýningum Kynjakatta.

Húskettir eru hjartanlega velkomnir á sýningarnar.

Það eina sem þú þarft að gera er að sækja um skráningarskírteini fyrir köttinn þinn og þá getur hann fengið að taka þátt í sýningunum.

Húskettirnir keppa eingöngu á móti öðrum húsköttum, en þeir safna stigum og titlum rétt eins og þeir hreinræktuðu.

Geta allir húskettir tekið þátt?

Kötturinn þinn þarf að vera að minnsta kosti 4 mánaða gamall en ekkert takmark er síðan á aldrinum.

Kötturinn þarf að vera með skráningarskírteini frá Kynjaköttum og til þess að geta sótt um slíkt þarf kötturinn þinn að hafa gengið undir ófrjósemisaðgerð og örmerkingu. Vottorð þar sem dýralæknir staðfestir ófrjósemisaðgerðina er skilað inn með umsókn um skráningnarskírteini húskattar.

Eigandi kattarins þarf að hafa greitt félagsgjald sýningarársins.

Kötturinn þarf að vera við góða almenna heilsu og ekki er verra ef hann tekur ókunnugum vel. Það er þó engin leið til að vita hvernig kötturinn tekur þessu nema bara að prófa. Sumir kettir sem eru einstaklega blíðir geta allt í einu orðið mjög reiðir þegar þeir eru innan um marga ókunnuga en eins getur köttur sem er kannski ekki sérlega mannblendinn orðið mjög rólegur í þessum aðstæðum. Það er um að gera að prófa og sjá hvernig kötturinn tekur þessu.

Munið að undirstaðan að heilbrigðum og fallegum ketti er hollt og gott fæði!

 

Texti eftir Jónu Dögg Sveinbjörnsdóttur, 2014