Tímabundin gelding með Suprelorin

Afslappaður húsköttur - Ljósmynd Sirrý Klemenzdóttir hjá Þetta Stúdíó Afslappaður húsköttur - Ljósmynd Sirrý Klemenzdóttir hjá Þetta Stúdíó

Suprelorin er lyf sem upprunið er hjá lyfjafyrirtækinu Peptech Animal Health, og er ætlað til timabundinnar geldingar á hundum. Það kom fyrst á markaðinn í Ástralíu í desember 2004 og í kjölfarið á Nýja Sjálandi í september árið 2005. Árið 2007 var Suprelorin svo leyft innan ríkja Evrópusambandsins og fleiri lönd hafa fylgt í kjölfarið.

Suprelorin er í formi lítillar flögu, mjög álíka að stærð og örmerki. Flagan er sett undir húð á milli herðablaða dýrsins með tæki svipuðu því sem notað er við örmerkingu. Það krefst því hvorki svæfingar né deyfingar að setja Suprelorin í dýr.

Virka efnið í lyfinu er Deslorelin sem er GnRH hamlari, GnRH er hormón líkamans sem stjórnar framleiðslu kynhormóna. Á einfaldan hátt losnar Deslorelin smám saman úr flögunni sem sett er undir húðina og sendir skilaboð til heiladingulsins sem sér um að framleiða hormón líkamans. Skilaboðin eru þau að nóg sé til af hormónum þannig að heiladingullinn hættir að framleiða þau og í kjölfarið hættir líkaminn að framleiða sæðisfrumur og egg.

Það er því í raun ekki verið að bæla niður hormónaframleiðslu með kemískum efnum eða öðrum hormónum, heldur er líkaminn einfaldlega gabbaður til að halda að nóg sé til af hormónum. Af þessum sökum eru aukaverkanir af völdum Suprelorin nær óþekktar.

Suprelorin er framleitt og leyft til notkunar í rökkum. Einhverjar rannsóknir hafa þó verið gerðar á áhrifum lyfsins á tíkur og einnig á högna og læður. Þessi notkun hefur þó enn ekki verið rannsökuð nægilega til að leyfi hafi fengist frá lyfjaeftirliti til notkunar á annað en rakka. Þrátt fyrir að fáar formlegar rannsóknir hafi verið gerðar er Suprelorin orðið nokkuð útbreytt innan kattaræktarheimsins.

Suprelorin í köttum

Einhverjar rannsóknir hafa þó verið gerðar á áhrifum Suprelorin á ógelda högna. Meðal þess sem fram hefur komið í þessum rannsóknum er að eistun minnka, broddar á getnaðarlim hverfa nær alveg, matarlyst og þyngd eykst, merkingar (sprey) minnka, það dregur úr lykt þvagsins og almennur áhugi högnanna á læðum minnkar. Í raun fara þeir að haga sér líkt og geldir högnar. Í rannsóknunum var notast við minni skammtinn af Suprelorin, 4.7 mg sem virka á í 6 mánuði á hunda. Virknin í högnunum var nokkuð lengri eða 12-18 mánuðir.

Það virðist einnig misjafnt hversu fljótt eftir ísetningu flögunnar högnarnir teljast alveg ófrjóir og þyrfti því að fylgjast vel með þeim í allt að 4-5 vikur eftir ísetninguna til að koma í veg fyrir óæskilegar paranir. Í þessum rannsóknum komu ekki fram neinar aukaverkanir hjá högnum og enginn köttur veiktist af völdum lyfsins. Þeir sem gerðu rannsóknirnar styðja þá kenningu að lyfið sé hættulaust högnum og hægt sé að mæla með notkun þess. Þó er ljóst að fleiri slíkar rannsóknir þarf til áður en lyfið fær formlegan stimpil til notkunar á köttum. Ekki hefur enn verið rannsakað hvernig frjósemi kattanna er eftir að áhrif lyfsins dvína.

Samkvæmt framleiðanda Suprelorin má búast við að hormónaframleiðsla aukist tímabundið eftir ísetningu flögunnar, framleiðslan nær þá ákveðnum toppi en minnkar svo jafnt og þétt eftir það. Þessu hef ég heyrt lýst frá kattaæktendum erlendis sem notað hafa Suprelorin á sína högna. Þeir segja að sprey, væl og almenn högnahegðun versni til muna í 2-4 vikur eftir ísetninguna en svo dragi hratt úr hegðuninni og að högnarninr fari að haga sér líkt og geldingar eftir þessa upphaflegu hormónabombu.

Reynsla kattaræktanda af Suprelorin

Í leit minni að upplýsingum um notkun Suprelorin á ketti rakst ég á ítarlega og greinagóða lýsingu frá ræktanda Norskra Skógarkatta í Hollandi. Melanie Natrop hefur verið með ræktunina fra Jerriks Smykkeskrin frá árinu 1993. Melanie hefur notað Suprelorin á bæði ógelda högna og læður í mörg ár með góðum árangri. Hún talar um að högnarnir hafi hætt að spreyja, væla og elta læðurnar. Þeir hafi þyngst og fengið þykkari og fallegri feld eins og oft vill gerast þegar högnar eru geldir. Þeir hafi einnig hætt að slást innbyrðis og orðið afskaplega ljúfir í skapi og sótt meira í athygli og félagsskap mannfólksins. 

Allir þeir högnar sem Melanie Natrop hefur notað Suprelorin á hafa orðið ófrjóir í 14-18 mánuði og allir hafa þeir gefið af sér stór og heilbrigð got eftir að lyfið hætti að virka. Hún hefur einnig notað Suprelorin á læður hjá sér. Ýmsar ástæður hafa verið fyrir því, hún var til dæmis með læðu sem merkti inni en hætti þegar Suprelorin var sett í hana. Sú læða byrjaði hins vegar að breima 6 mánuðum eftir ísetningu og fór á síbreim sem stöðva þurfti með því að gefa pilluna. Hún hefur notað Suprelorin á aðrar læður til að gefa þeim frí frá pörunum í lengri tíma og vegna legbólgna sem notkun pillunar olli. Allar þessar læður hafa eignast heilbrigð got eftir að áhrif Suprelorin dvínuðu eftir sirka 18 mánuði.

Fyrir utan sögu Melanie hef ég heyrt frá fleiri kattaræktendum erlendis sem notað hafa Suprelorin með góðum árangri. Ég hef þó heyrt frá þriðja aðila að einhverjir högnar hafi ekki orðið frjóir aftur eftir notkun Suprelorin en hef ekki fengið það staðfest að öðru leyti. 

Að lokum

Í heildina virðist Suprelorin bjóða leið sem getur létt líf margra kattaræktenda sem glíma við högna sem merkja mikið eða læður sem þola illa pilluna. Ég verð þó að ítreka að Suprelorin er ekki ætlað til notkunar í köttum samkvæmt framleiðanda lyfsins. Þó svo að frumrannsóknir á notkun lyfsins á ketti hafi gefið góða raun og reynsla margra kattaræktenda af Suprelorin sé jákvæð þá verður maður sjálfur að lesa sér vel til og vega og meta kosti og galla.

Helsta áhættan sem maður tekur er að ekki er ljóst hversu lengi kötturinn verður ófrjór eftir ísetningu flögunnar. Ég hef heyrt talað um allt frá 6-24 mánuða, en eflaust eru til dæmi um lengri eða styttri tíma en það. Það er því varhugavert að láta setja Suprelorin í högna sem verður að vera tilbúin til pörunar eftir ákveðinn langan tíma.

Eins og áður hefur verið nefnt hafa heldur engar rannsóknir verið gerðar á frjósemi kattanna eftir að áhrif lyfsins hætta. Þó svo að virkni lyfsins í eðli sínu og reynsla margra ræktenda segji að lítil hætta sé á viðvarandi ófrjósemi, ætti maður að vera viðbúinn því að högninn gæti orðið ófrjór það sem eftir er og vera tilbúinn til að taka þá áhættu.

 

Greinahöfundur: Steinunn Anna Eiríksdóttir

Birtist í fréttabréfi Kynjakatta, 2. tbl. 21. árangur 2011.

 

Heimildir:

Goericke-Pescha, S., Georgievb, P., Antonovb, A., Albouyc, M. og Wehrenda, A. (2011). Clinical efficacy of a GnRH-agonist implant containing 4.7 mg deslorelin, Suprelorin®, regarding suppression of reproductive function in tomcats. Theriogenolog, 75, 803–810.

Romagnoli, S., Geretto, N., Stelletta, C., Milani, C., Gelli D. og Mollo, A. Prolonged Suppression of Reproductive Activity in Male Cats with a 4.7 Mg Implant of Deslorelin.
Birt á slóð: http://www.acc-d. org/4th%20Symposium%20Files/RomagnoliPoster.pdf 

www.peptech.com
http://www.smykkeskrin.nl/engl_suprelorin.htm