Undirbúningur fyrir sýningu

Ef þú fylgir þessum reglum er kötturinn þinn velkominn á sýningu Kynjakatta:

  • Kötturinn þarf að vera skráður hjá Kynjaköttum.
  • Eigandi kattarins þarf að hafa greitt félagsgjald sýningarársins.
  • Kötturinn þarf að vera bólusettur í samræmi við bólusetningarreglur félagsins.
  • Það þarf að vera búið að klóaklippa köttinn á öllum loppum.
  • Húskettir á sýningum félagsins þurfa nú allir að hafa skráningarskírteini, til að fá skráningarskírteini þarf að skila inn vottorði frá dýralækni sem staðfestir að kötturinn sé geldur.

Sýningarklefarnir  

Eigandi kattarins kemur með búr til að sýna köttinn í, æskilegt er að það sé ekki dýpra en 60cm þar sem borðin rúma ekki meira, engin hlið má þó vera minni en 50 cm. Eigandi kattarins þarf að koma með gardínur til að skýla kettinum frá köttum í næsta búri en mismunandi er hvað fólk leggur mikið í þær. Flestir koma með búr sem eru úr járnrimlum en einfalt er að hengja hefðbundna gardínugorma innan á slík búr og setja gardínur á þrjár hliðar en það eru auðvitað margar aðrar leiðir færar.  Umfram allt þarf bara að hafa þær þannig að kettinum líði vel og sýningargestir geti líka séð inn í klefann.

Sumir kjósa að setja Plexigler á utanvert búrið til að verja köttinn frá áreiti en það er alls ekki nauðsynlegt einnig getur verið gott að hafa hörð spjöld í þeim hliðum sem koma upp að næstu búrum til að koma í veg fyrir áreiti frá ketti í næsta búri. Stundum hafa verið veitt verðlaun fyrir fallegasta búrið og hvetur það fólk til að gera enn flottara hjá kisunum. Þó má samt ekki gleyma sér í dúlleríi og kötturinn týnist í pífum og tjulli.  Fyrir þá sem eru að prufa að sýna í fyrsta sinn er hægt að kaupa taubúr á góðu verði hjá Dýrheimum s/f, í þessi taubúr þarf ekki gardínur og þau eru ódýr kostur. Einungis félagsmenn Kynjakatta geta keypt þessi taubúr framleidd af Royal Canin.

Snyrting fyrir sýningu

Hér á eftir eru tillögur að snyrtingu katta, bæði stutthærðra og síðhærðra. Oft er líka gott að prufa sig áfram og finna út hvað hentar sínum ketti best. Það verður að passa sig á því að fara ekki í "tilraunaþvotta" rétt fyrir sýningu. Sumir ganga í gegnum mikið ferli í að snyrta köttinn sinn en aðrir gera það nauðsynlegasta og það er oft erfitt að sjá muninn.

Síðhærðir kettir

Einum mánuði fyrir sýningu á að byrja að undirbúa feldinn. Bursta og baða e.t.v. 2-3 sinnum. Ekki bursta óhreinindi úr þurrum feldi (það slítur feldinum), heldur væta hann fyrst. Losa líka allar flækjur fyrir baðið. Kettir þurfa heitara baðvatn en fólk. Þynna sjampóið með vatni (1 á móti 10), nota t.d. svamp og sápu oft, 3-5 sinnum. Skola á milli og þvo andlitið síðast varlega með svampi. Ekki nota mýkjandi sjampó fyrir Skógarketti. Norskir Skógarkettir mega nota næringu fyrir stríðhærða ketti en helst ekki persanæringu. Nota stórt vaskaskinn til þess að þerra feldinn eftir baðið, það dregur vel í sig vætu og er hægt að vind úr því á milli. Nota svo hárþurrkara til að þurrka feldinn, byrja á maganum. Ef kötturinn verður hræddur er hægt að setja handklæði yfir höfuð og eyru, einnig má nota kraga á reiða ketti. Sumir nota alls ekki hárblásara og er það alls ekki nauðsynlegt. Síðan þarf að bursta og greiða ATH! alls ekki greiða skottið á NFO. Gott er að nota málmbursta með mjúkum botni helst ekki með gúmmí á endum og greiðu með bæði grófum og fínum teinum.

Stutthærðir

Það er mjög auðvelt að snyrta stutthærðan kött. Fyrir sýningar leggur maður meiri áherslu á snyrtinguna. Það er ekki nauðsynlegt að setja þá í bað en það er sniðugt að bleyta þvottapoka með volgu vatni og renna yfir köttinn. Það er til ýmsir kambar og greiður sem gott er að greiða hann með til að ná lausum hárum. Það eru til sprey sem hægt er að bera á köttinn daginn sem sýningin er til þess að hann fái fallegan glans.

Klóasnyrting

Margir kattaeigendur klippa klær kattarins 1-2 í mánuði, einkum þegar hann er inniköttur. Útikettir slíta þeim meira á eðlilegan hátt og þurfa þess vegna ekki að láta klippa sig eins oft. Fyrir sýningar þarf að klippa allar klær vandlega. Það verður að fara varlega og aldrei klippa uppí kviku. Bleiki hlutinn af hverri kló eða kvikan (innan í klónni) tengist taugaendum og blóðrás og hana má aldrei særa. Gott er að fá tilsögn frá einhverjum sem vanur er að klippa í fyrsta skipti.

Það má heldur ekki gleyma að kíkja inní eyru og hreinsa þau á öllum kisum, einnig má ekki gleyma augum og rassinn verður líka að vera hreinn og fínn. Sumir bursta tennurnar í kisunum sínum en það hefur kannski ekki mikið að segja nema að maður geri það reglulega.

Munið að undirstaðan að heilbrigðum og fallegum ketti er gott fæði!