Kettir á gamlárskvöld

Íslendingar eru duglegir við að sprengja upp á gamlárskvöld, en á þessu kvöldi þarf að huga sérstaklega að dýrunum okkar. Mikill hávaði kemur af öllum þessum sprengingum og stendur litlu loðnu vinum okkar ekki alltaf á sama.

Flestir kettir hræðast mikinn hávaða og hafa ekki skilning á því hvað er að gerast eða hversu lengi þetta ástand varir. Þessi ofsahræðsla gæti lýst sér á nokkra vegu: kötturinn hleypur um og reynir að fela sig, prílar upp húsgögn, er með óvenju hraðan hjartslátt, setur tunguna út og andar eins og hundur, vælir mikið eða jafnvel kastar upp.

Er eitthvað hægt að gera?

Er hægt að róa dýrin okkar svo gamlárskvöld verði þolanlegra fyrir þau? Svarið er já, en til þess þarf að hafa aðeins fyrir því áður en kvöldið sjálft rennur upp.

Nokkrum dögum fyrir

Kötturinn vill örugglega fá að fela sig, vertu því búinn að útbúa einhvern góðan felustað fyrir dýrið. Bestu staðirnir eru fjarri öllum gluggum, helst inni í skáp, bak við sófa eða þar sem er gluggalaust eins og inni á baðherbergi eða inni í þvottahúsi.

Leggðu fullt af teppum niður og koddum í kring til að dempa hávaðann. Athugaðu samt að þetta þarf að vera staður þar sem kötturinn þinn er vanur að vera á. Ef til vill þarf að útbúa staðinn nokkrum dögum fyrir og skilja eftir smá kattarnammi á staðnum. Hafðu einnig mat, vatn og kattaklósett nálægt felustaðnum. Kettinum þarf að finnast hann öruggur á þessum stað.

Gott ráð er að kaupa lyktarfermón sem stungið er í rafmagnsinnstungu en við það dreifast fermónin um rýmið. Þessi efni draga úr streitu og kvíða hjá dýrunum en við mannfólkið finnum ekkert fyrir þessu. Þetta heitir Feliway og fæst það án lyfseðils hjá dýralæknum. Einnig er hægt að fá Pet Remedy sem eru blómadropar/remedíur í gæludýrabúðunum sem stungið er í samband. Það tekur í kringum 24-48 tíma fyrir efnið að byrja að virka, mundu því að stinga því í samband að minnsta kosti 2 sólarhringum fyrir gamlárskvöld.

Þegar kvöldið rennur upp

Á sjálfu gamlárskvöldinu skaltu passa að allar útgönguleiðir séu vel lokaðar, bæði gluggar og hurðir, svo hávaðinn verði minni. Dragðu einnig fyrir alla glugga svo ljósaglampinn af flugeldunum komi ekki inn.

Vertu tilbúinn með rólega tónlist til spilunar, en passaðu samt að spila ekki of hátt. Tónlistin á alls ekki að yfirgnæfa flugeldana heldur rétt að heyrast í bakgrunni. Rólegt píanóspil virðast virka best á ketti. Til er plata sem heitir “Through a cat's ear” og er alveg tilvalin fyrir kvöldið. Hana er t.d. hægt að finna inná Spotify.


Það er í lagi að gefa kettinum eitthvað smá kattanammi eða eitthvað sem honum þykir mjög gott, en gættu þess að ofgera því ekki. Dýrið gæti skynjað að eitthvað óvanalegt sé í uppsiglingu og þá brugðist verr við en ella. Vertu því róleg/ur og eðlileg/ur í kringum köttinn, klappaðu honum og talaðu við hann í rólegum tón. Einnig væri sniðugt að reyna að leika við köttinn með uppáhalds dótinu hans.

Ef kötturinn verður mjög æstur leyfðu honum að ráða sér sjálfur en ekki reyna að halda honum, og það má alls ekki refsa honum. Kötturinn er hræddur og refsing myndi aðeins auka á stressið og kvíðann.

Og að lokum

Athugið að ekki eru allir kettir eins. Sum af þessum ráðum gætu virkað fyrir köttinn þinn en ef ekkert virkar þá er best að tala við dýralækni. Í sameiningu getið þið fundið út hvað best væri að gera fyrir köttinn svo hann sé ekki stressaður og líði illa í látunum á gamlárskvöldi.

 

Greinahöfundur: Jóna Dögg Sveinbjörnsdóttir

Birtist í fréttabréfi Kynjakatta, 2. tbl. 25. árangur 2014.