Kynning á frambjóðendum til stjórnar 2017

10. maí 2017

Aðalfundur Kynjakatta verður haldinn 21. maí nk. kl. 14 á Kaffi Reykjavík. Kosið verður meðal annars í stöðu ritara, gjaldkera og formanns á fundinum.

Skoðið fulla dagskrá fundarins hér.

Athugið að einungis félagsmenn sem hafa greitt félagsgjöld fyrir árið 2017 og sækja fundinn hafa kosningarrétt. Einnig er þó hægt að óska eftir að greiða atkvæði utan kjörfundar. Sendið fyrirspurn á stjorn@kynjakettir.is.

 

Eftirfarandi framboð hafa borist Kynjaköttum:

TIL FORMANNS

Sigurður Ari Tryggvason

"Ég heiti Sigurður Ari Tryggvason og bý ásamt fjölskyldu og fimm Maine Coon kisum á Akureyri.

Það hafa verið kettir á mínu heimili nánast alla tíð en fyrsti ræktaði kötturinn sem við fengum árið 1986 var Síams kisinn Skuggi sem við fengum að njóta í tæp 17 ár. 2005 fengum við okkar fyrsta Maine Coon og byrjuðum að mæta á sýningar Kynjakatta þá um haustið og höfum gert það síðan. Í dag ræktum við Maine Coon ketti undir nafninu Ice Viking’s.

Meira og minna síðan 2006 hef ég tekið fullan þátt í störfum félagsins bæði á sýningum og sem vefstjóri. Núna langar mig að ganga ögn lengra og nýta reynslu mína í þágu félagsins og býð mig því fram til formanns í stjórn Kynjakatta."

 

Aliosha Romero

"Ég hef mikla reynslu tengda köttum og kattaklúbbum. Ég keypti fyrsta köttinn minn árið 1991 og byrjaði að rækta Norska skógarketti 1993 og Cornish Rex 2010.

Ég varð kattadómari 1997 og FIFé dómari 2002.

Ég hef verið í stjórn kattaklúbba bæði hér á Íslandi og í  Svíþjóð og bý því yfir mikilli reynslu. Ég hef unnið að því að skipuleggja og setja upp stórar sýningar. Sem FIFé dómari hef ég mikla þekkingu á reglum FIFé og hef því mikið fram á að færa fyrir Kynjaketti. Ef ég verð kosinn formaður félagsins mun ég gera mitt besta til að gera Kynjaketti að enn sterkara félagi."

 

TIL RITARA

Sigríður Þóra Gabríelsdóttir

"Ég er 47 ára og gift Sævari Reinaldssyni.Við búum á Ásbrú/Keflavík.

Í dag deilum við húsnæði með 5 læðum og einum högna en ég hef verið að starta mér upp aftur eftir að hafa búið í Danmörk í 4 ár en þaðan tók ég með mér einn högna sem reyndar er í fóstri. Högninn sem býr hjá mér var fluttur inn fyrir 5 mánuðum.

Ég hef verið í Kynjaköttum í 14 ár og þar af ræktandi í 13 ár, fyrst með colorpoint Persa og svo seinna með Maine Coon.

Ég hef áhuga á að bjóða mig fram til ritara til að leggja mitt af mörkum til okkar litla félags."

 

TIL GJALDKERA

Íris Ebba Ayjai

"Ég heiti Íris Ebba Ayjai og er ásamt fjölskyldu minni búsett í Sandgerði. Ég er búin að sitja í stjórn Kynjakatta sem gjaldkeri seinustu 2 ár og endurnýja hér með framboð mitt.

Ég er fisktæknir að mennt, er útskrifuð úr gæðastjórnun Í Fisktækniskóla Íslands og vinn hjá Lögreglustjóra Suðurnesja. Ég er eigandi ásamt eigin manni mínum Julius Ajayi af Arctic North ræktuninni en við erum að rækta Maine Coon."

 

Ása Björg Ásgeirsdóttir

"Ég hef verið viðloðandi félagið frá því ég fékk mína fyrstu hreinræktuðu kisu árið 1999.

Ég var í stjórn félagsins árin 2003 til 2010. Byrjaði sem meðstjórnandi 2003, var svo gjaldkeri 2004 til 2006 og síðan sýningarstjóri 2006 til 2010 þegar ég hætti í stjórn. En hætti ekki að vera með á sýningum og hélt áfram að hjálpa til þegar ég var að sýna ketti.

Ég vona að þið sjáið mig sem góðan valkost sem gjaldkera félagsins og ég lofa að standa mig vel í starfi ef ég verð kosin."