Tilmæli FIFe vegna H5N1 fuglaflensu

3. mars 2006

Heilsu- og velferðarnefnd Fédération Internationale Féline sendi í gær frá sér tilmæli og ráðleggingar vegna frétta um ketti sem smitast hafa af H5N1 fuglaflensu.

Nefndin leggur á það áherslu að engar vísbendingar séu ennþá til þess að kettir geti borið veiruna í sér, en þó hafa rannsóknir sýnt að kettir geti smitað aðra ketti af veirunni. Talið er að líklegt sé að þeir kettir sem hafa sýkst, hafi etið hrátt fuglakjöt af sýktum alifuglum.

Tilmæli nefndarinnar eru á þá leið að köttum sé haldið innandyra í 3 km. radíus frá þeim stað þar sem veiran hefur fundist í fuglum. Ef köttur hafi verið nálægt sýktum alifuglum, þá ætti að halda honum í einangrun til frekari skoðunar.

Þá leggur nefndin áherslu á að köttum sé ekki gefið hrátt fuglakjöt að borða.

Að lokum fjalla tilmælin um að hlutverk katta í útbreiðslu veirunnar sé óþekkt, og að ekki hafi verið sýnt fram á að þeir geti smitað mannfólk. Þá telur nefndin að hættan á að kettir sýkist af veirunni sé mjög takmörkuð, en þó megi ekki hundsa hana.

Tilmæli nefndarinnar í heild sinni á ensku.