Kynning á frambjóðendum fyrir aðalfund 2016

9. maí 2016

Félaginu hafa borist samtals fimm framboð eftir fjórum stöðum. Guðný Ólafsdóttir og Jóna Dögg Sveinbjörnsdóttir hafa endurnýjað sín framboð fyrir gjaldkera og ritara en þrír nýjir hafa gefið kost á sér.

Athugið að við ætlum að framlengja frestinn til miðnættis á þriðjudagskvöld til að óska eftir utankjörfundar atkvæðisseðlum, sökum þess að 2 frambjóðendur hafa sótt um stöðu varaformanns. Sendið tölvupóst á kynjakettir@kynjakettir.is til að óska eftir seðli.

Kynning á nýjum frambjóðendum


TIL VARAFORMANNS:

Sunna Ingvarsdóttir

"Ég er 38 ára, á 4 börn og ég er menntaður förðunarfræðingur, klæðskeri og húðflúrari. Við maðurinn minn eigum fataverslun í Smáralind sem hann rekur og stýrir.

Ég er ræktandi af Maine Coon. Á 2 innfluttar læður og er að flytja inn þann þriðja núna í lok árs. Ég hef yndi og unun af kisukrílunum mínum og hef áhuga á að leggja kynjaköttum lið í að efla og vinna að þrusu félagi."

 

Sigurður Ari Tryggvasson

"Ég heiti Sigurður Ari Tryggvason og bý ásamt fjölskyldu og fjórum Maine Coon á Akureyri.

Það hafa verið kettir á mínu heimili nánast alla tíð en fyrsti ræktaði kötturinn sem við fengum árið 1986 var Síams kisinn Skuggi sem við fengum að njóta í tæp 17 ár. 2005 fengum við okkar fyrsta Maine Coon og byrjuðum að mæta á sýningar Kynjakatta þá um haustið og höfum gert það síðan. Í dag ræktum við Maine Coon ketti undir nafninu “Ice Viking’s”.

Meira og minna síðan 2006 hef ég tekið fullan þátt í störfum félagsins bæði á sýningum og sem vefstjóri. Núna langar mig að ganga ögn lengra og nýta reynslu mína í þágu félagsins og býð mig því fram í stjórn Kynjakatta."

 

TIL SÝNINGARSTJÓRA:

Helga Karlsdóttir

"Ég Helga Karlsdóttir býð mig fram sem sýningarstjóra. Hef verið virk á sýningum Kynjakatta síðan 2004. Í fyrstu aðeins sem sýnandi en á seinni árum þekkja fleiri mig sem rauðhærða dómþjóninn. Hef ég mikinn áhuga á félaginu og að vera virk í starfsemi þess, sérstaklega með því að leyfa sem flestum að upplifa skemmtunina við sýningar Kynjakatta."