Blóðflokkar katta
Kynjaköttum barst ábending frá dýralækninum Rögnvaldi Ingólfssyni um leiðir til að blóðflokka ketti hér á landi.
Nokkur kyn eðalakatta eru með einstaklinga af blóðflokki B. Það á t.d. við um British Shorthair (50%), Birman (16%) og Persa (24%) en um fleiri kyn er að ræða. Talið er að eftirfarandi kyn séu með tíðni B blóðflokksins á milli 10-50%:
Birman, British Shorthair, Cornish Rex, Devon Rex, Exotic, Japanese Bobtail, Persian, Scottish Fold, Somali og Sphynx.
Ef læður af B flokki eru paraðar við högna af A flokki fæðast kettlingarnir heilbrigðir, en deyja nokkrum tímum eftir að hafa drukkið móðurmjólkina. Þetta er vegna þess að í broddmjólk læðu af B flokki er mikið magn mótefna gegn rauðum blóðkornum kettlinga af A flokki. Mótefnin berast í blóð úr görnum fyrstu 24-36 stundirnar eftir got. Hægt er að koma í veg fyrir þetta ef kettlingunum er gefið og þeim ekki leyft að sjúga læðuna fyrstu 36 stundirnar eftir got.
Árið 2005 þegar Rögnvaldur var að para Birma, fannst honum ekki stætt á öðru en að blóðflokka högnann og læðuna. Blóðflokkun stóð ekki til boða hér á landi á þeim tíma og virðist sem sjúkdómnum hafi ekki verið mikill gaumur gefinn. Fékk hann því lyfjafyrirtæki til að flytja inn efni til flokkunarinnar og dýralækni í Mosfellsbæ til að hjálpa við blóðsýnatöku og rannsókn.
Kynjakettir hvetja alla ræktendur til að láta blóðflokka kettina sína ef þeir eru af kynjum þar sem B blóðflokkurinn kemur fyrir.
Dýralæknirinn í Mosfellsbæ er með efni til flokkunarinnar og ættu aðrir dýralæknir að geta útvegað það í dag.