Kettir í sviðsljósinu

Forsíða bókarinnar Hollywood Cats Forsíða bókarinnar Hollywood Cats

Síðasta haust kom út bók í Bandaríkjunum sem er að mörgu leyti merkileg, en það er ljósmyndabók með myndum úr safni John Kobal Foundation.

John Kobal (1940-1991) var kvikmyndasagnfræðingur sem stofnaði góðgerðarsjóð árið 1990 sem veita átti verðlaun fyrir portrett ljósmyndir og hjálpa listamönnum að koma efni sínu á framfæri við umheiminn. Sjálfur safnaði hann ljósmyndum, tímaritum og minjagripum úr kvikmyndageiranum, sérstaklega frá Gullnu öld Hollywood sem stóð frá seinni hluta 3. áratugarins til fyrri hluta þess 7. á liðinni öld.

Frá ljósmyndasafni hans hafa verið gefnar út ýmsar athyglisverðar bækur og nú síðast kom út bókin Hollywood Cats sem er samansafn mynda úr safni Kobals með textum eftir Gareth Abbott og Simon Crocker. Myndin á forsíðu bókarinnar er af leikkonunni Elizabeth Taylor á táningsaldri haldandi á bröndóttum ketti og gefur hún fögur fyrirheit um það sem finna má í bókinni. Bæði eru þar myndir af stjörnunum með mótleikurum úr kvikmyndum og með sínum eigin köttum. 

Steini og Olli með kött á milli sín, 1927. (©John Kobal Foundation)

Á meðal þeirra sem myndir eru af í bókinni eru leikarar eins og Ingrid Bergman, Audrey Hepburn, Grace Kelly, James Dean, Vivien Leigh, Charlie Chaplin, Clark Gable, Marilyn Monroe og margir fleiri. Bókin fær góða dóma og þykir mikill fjársjóður, bæði fyrir aðdáendur kvikmynda og fyrir aðdáendur katta af öllum stærðum og gerðum. Hún fæst til dæmis á Amazon.co.uk og kostar þar um 4.000 krónur.

Ljónið Slats í myndatöku fyrir MGM merkið árið 1928

Á gullöld Hollywood hlutu margar kisur frægð um stund fyrir leik í kvikmyndum. Sú kisa sem hefur náð hefur hvað mestri frægð er líklega ljónið sem öskrar svo eftirminnilega í byrjun kvikmynda frá MGM kvikmyndaverinu. Ljónið sem við sjáum í dag er ekki fyrsta ljónið sem öskrar á okkur heldur það 7. í röðinni frá árinu 1924. Ljónið Slats birtist þá fyrst á hvíta tjaldinu, en hann horfði bara í kringum sig þar sem kvikmyndir voru þöglar til ársins 1927. Í dag er það ljónið Leo sem öskrar en hann hefur fengið að láta ljós sitt skína frá árinu 1956.

Teiknimyndakisur koma líka upp í hugann þegar kemur að köttum í kvikmyndum. Frægastar frá gullaldartímanum myndu teljast Tommi (annar helmingur Tomma og Jenna), Sylvester (sem er alltaf að reyna að ná Tweety) og Felix. Grettir sló í gegn á 9. áratugnum í dagblöðum og bókum en kom fljótlega fram í teiknimyndum og árið 2004 „lék“ hann í alvöru kvikmynd í fyrsta sinn. Hello Kitty er sér fyrirbæri sem kom fyrst fram í Japan árið 1976 þar sem fyrirmyndin er japanskur stuttrófuköttur.

Kisi kominn á netið? (©Kolbrún Bergsdóttir)

Með tilkomu internetsins og samfélagsmiðla á við Facebook, Instagram og Snapchat hafa vinsældir katta margfaldast og margar kattakerlingarnar „komið út úr skápnum“. Daglega flæða um netið krúttlegar kisu- og kettlingamyndir og kettir sem líta öðruvísi út græða á tá og fingri ef svo má segja. Dæmi um kisur sem gera það gott eru japanski kötturinn Maru sem elskar alla kassa, hin fúla Grumpy Cat (sem reyndar er læða) og Lil Bub sem ullar á alla, en neðri kjálkinn er styttri en sá efri. Kisukerlingar og -karlar deila myndum í hinum ýmsu hópum á Fésbókinni og einnig eru ráðleggingar á hverju strái Netsins. Vinsælir hópar eru til dæmis: Kettir á Facebook, Aðdáendur katta og allir dýravinir, Kettirnir okkar og Kat Junkies. Kattavaktin er líka vinsæl enda nauðsynleg þegar auglýsa þarf eftir týndum köttum eða tilkynna fundna ketti. Kisuvinir hafa líka stofnað aðgang að Snapchat fyrir myndir og stutt myndbönd og eru með notendanafnið Kisusnappid.

Alltaf er að verða auðveldara að koma köttum og öðrum gæludýrum á framfæri en ætli þau séu ekki sáttust við að fá góðan matarbita, frelsi til að valsa um og koma svo heim í hlýtt ból og fá jafnvel gott klór?

 

Texti: Kolbrún Bergsdóttir

Birtist fyrst í fréttabréfi Kynjakatta, 1.tbl. 25.árgangur 2015.