Ketti bjargað eftir mörg ár á vergangi

Bergur er yndislegur köttur Bergur er yndislegur köttur

Margir kattaunnendur kannast við köttinn Berg sem bjargað var síðastliðinn vetur eftir að hafa verið á vergangi í Hafnarfirði til margra ára. Nýr eigandi Bergs segir hann vera hamingjusaman og gefandi kött í dag. Bergur er þó enn á faraldsfæti því hann flytur erlendis með eiganda sínum síðar í haust.

Sagan kom við hjartaræturnar


Bergur var illa á sig kominn þegar hann kom fyrst í Kattholt

Óskar Halldórsson, eigandi Bergs, segir að saga sín og Bergs hafi byrjaði með því að hann fylgdist grannt með heimasíðu Kattholts í þeim tilgangi að finna kött til ættleiðingar. ,,Þegar ég sé svo köttinn Búbbulínu í janúar ætlaði ég að slá til því hún líktist svo ketti sem ég átti lengi, Ungfrú Kisu. Þegar ég hef svo samband við Kattholt kemur í ljós að einhver annar hafði orðið fyrri til og tekið hana til sín, klukkutíma áður. Þarna sá ég að þetta var greinilega harður markaður!“ Óskar ákvað því að fylgjast gaumgæfilega með vefnum og vera fljótur að stökkva á kött sem honum litist vel á. Þegar Óskar las svo um útigangsköttinn Berg á heimasíðu Kattholts náði sagan til hans. Talið er að Bergur hafi verið ein átta ár á vergangi í Hafnarfirði og var hann orðinn langt leiddur þegar honum var náð. Kötturinn var bæði særður og ringlaður, afar magur og feldurinn í kleprum. „Það vissu margir af Bergi en það var ekki fyrr en Ragnheiður í Kisukoti á Akureyri fréttir af honum að eitthvað gerist. Hún ákveður að koma og athuga hvort hún næði ekki í skottið á honum. Henni tekst að veiða hann í búr og kemur honum svo til Kattholts. Ég verð henni ævinlega þakklátur fyrir þetta enda þakkaði ég henni seinna fyrir bréflega,“ segir Óskar.

Bergi leist ekkert á nýja eigandann

Óskar segir að saga Bergs hafi ekki síst snert við sér vegna þess að Bergi var bjargað úr Hnotubergi í Hafnarfirði. ,,Afi og amma eiga heima í Lyngberginu og ég heimsæki þau oft. Ég hugsaði með mér að kannski hefði ég séð hann einhvern tímann,“ segir Óskar. Hann hringdi því í Kattholt og spurði út í Berg. Fékk hann að vita að Bergur myndi ekki verða sendur strax á heimili heldur yrði hann í eins konar endurhæfingu í Kattholt í mánuð. Þegar Kattholt lét svo vita af því að Bergur væri tilbúinn brást Óskar snöggt við. „Tilkynningin var sett inn á laugardegi og ég hringi strax í Kattholt daginn eftir og legg inn þau skilaboð að ég vilji taka hann að mér.“ Á mánudeginum, 10. febrúar, er svo hringt til hans úr Kattholti og honum boðið að koma og hitta Berg. Venjan er sú að ef fólk hefur áhuga á að taka að sér kött kemur það upp eftir og skoðar köttinn. Síðan fer það heim og undirbúningur fer í gang. Köttinn fær fólk svo yfirleitt nokkru seinna. „Hjá mér gerist það hins vegar að ég má fara með hann heim strax! Mér líst vel á köttinn og Kattholtsfólki á mig. Hið sama var hins vegar ekki uppi á teningnum hjá Bergi sjálfum, eins og sjá má á myndunum sem ég tók af honum við þetta tækifæri.“

Uppvaskið varð að bíða

Í Kattholti hafði Bergur verið ormahreinsaður og laskað eyra hans lagað eins og kostur var, ásamt því að hann var geldur og örmerktur. Óskar fór þó fyrst með hann á Dýraspítalann í Víðidal þar sem hann var skoðaður áður en þeir héldu heim. ,,Bergur var rosalega lítill í sér. Ég kem heim með búrið, opna það og sný mér eitthvað við. Þegar ég lít á búrið aftur er hann horfinn. Hann var stokkinn í eldhúsvaskinn þar sem hann var svo allt kvöldið. Ég og Þórarinn, meðleigjandi minn, ákváðum því að láta uppvaskið bíða það kvöldið.“ Óskar segir að þarna hafi

Bergur byrjað feluleikina sína sem stóðu yfir í mánuð. „Fyrsta mánuðinn var hann alveg í felum og við leyfðum honum það. Pössuðum bara að kattamaturinn og sandurinn væri nálægt þeim felustað sem hann var á hverju sinni. Við sáum að maturinn hvarf og að hann var að nota kassann, við sáum hann bara ekki gera það.“ Óskar segir að í byrjun hafi hann haft nokkrar áhyggjur af því að Bergur myndi skíta undir eldhúsinnréttingunni, sínum eftirlætis felustað.

Bergur faldi sig undir hillusamstæðunni í stofunni

Kötturinn var jú búinn að vera fleiri ár á vergangi. Það hafi komið skemmtilega á óvart þegar svo var fór ekki. Bergur hafi reynst vera afar hreinlátur köttur sem gerir stykkin sín í kattakassann og hvergi annars staðar, eins og sómakærum ketti sæmir. Óskar segir líka að fyrst eftir að Bergur kom til hans hafi hann sofið mjög mikið. „Hann var sofandi á einhverjum stað þegar ég fór í vinnuna á morgnana og þegar ég kom heim var hann enn sofandi, á sama stað.“ Hann virtist því hreyfa sig lítið og hefur hreinlega verið að jafna sig og safna kröftum eftir alla hrakningana. „Fyrsta mánuðinn sem hann var hjá okkur skoðaði Bergur heldur ekkert íbúðina, hann hélt sig bara í stofunni og eldhúsinu,“ segir Óskar. Þetta skapaði ákveðið vandamál. „Ég vildi nú ekki hafa kattakassann inni í stofu! Það að flytja kassann inn á baðherbergi varð þannig alveg ævintýri út af fyrir sig þar sem hann hætti sér aldrei inn í íbúðina! Ég þurfti því að flytja kassann í hænuskrefum frá stofunni, eftir ganginum, og að lokum inn á baðherbergi. Þetta ferli tók tvær vikur en það tókst á endanum þótt Bergur hafi eflaust oft verið hissa þegar hann kom að kassanum sínum á öðrum stað.“

Elskar að láta bursta sig

Mánuði eftir að Bergur kom til Óskars hætti hann að hlaupa og fela sig í hvert sinn sem hann varð var við aðra íbúa heimilsins. Óskar prófaði þá að bursta Berg því feldurinn var afar slæmur. „Bergur tók á stundinni miklu ástfóstri við burstann og finnst ekkert betra en að láta bursta sig.

Bergur elskar burstann!

Það má eiginlega segja að hann sjái um að bursta sig sjálfur og það sé nóg að halda bara á burstanum!“ Óskar segir að feldurinn á Bergi hafi lagast ótrúlega mikið. Langan tíma hafi tekið að losna algerlega við djúpan og rótfastan skít og klepra sem í honum voru. Feldurinn var bæði mattur og harður en nú er hann miklu betri. „Þegar ég var að bursta hann þarna var hann auðvitað enn mjög hvumpinn en þetta var allt á réttri leið.“ Örlítið bakslag kom reyndar í aðlögunina þegar Óskar neyddist til að fara með Berg til dýralæknis í mars þegar ígerð var komin í brotna tönn sem hafði verið látin eiga sig. Nauðsynlegt var hins vegar að fjarlægja tönnina og þetta sló Berg aðeins út af laginu. „Hann var samt nokkuð fljótur að komast aftur á beinu brautina.“ Bergur varð æ öruggari með sig og í júní hætti hann að leggja sig inni í horni undir sófanum og fór að leggjast í miðjan sófann. „Þar liggur hann oft og geispar að manni, liggur jafnvel á bakinu með magann út í loftið.“

Vandlátur á túnfiskinn

Til að byrja með át Bergur allt sem tönn á festi. Óskar setti hvaða kattamat sem var í skál og Bergur borðaði allt. „Hann spratt úr leyni, hreinsaði skálina og hvarf svo aftur. Ekki lengur! Nú er hann orðinn matvandur og hreinlega frekur!“ segir Óskar og segir okkur að stundum sé Bergur kallaður Belgur vegna þessa. „Núna þýðir heldur ekki að bjóða honum hvaða kattamat sem er. Hann er voða hrifinn af litlu pokunum þannig að hann fær tvo þannig poka á dag, einn á morgnana og annan á kvöldin.“ Bergur virðist hafa ágætis tennur og á ekki í erfiðleikum með að borða þurrmat þótt það sé nú ekki í uppáhaldi hjá honum. „Hann hefur miklar skoðanir á því hvað er við hæfi og hvað ekki. Ég kenni Þórarni um, hann dekraði við Berg með sérvöldum, ítölskum túnfiski og það er svolítið erfitt að bakka eftir það! Europris dósirnar eru víst ekki í sama gæðaflokki. Þið ættuð að sjá vandlætingarsvipinn og vælið í honum þegar maður teygir sig í vitlausa dós.“ Óskar segist þurfa að passa sig á því að leyfa Bergi ekki að éta af hjartans lyst. „Hann myndi hlaupa í spik ef það væri í boði, hann er nú þegar orðinn nógu gildvaxinn.“ Í honum blundar enn svangur flækingsköttur.

Nýtur allrar athygli

Óskar segir Berg kunna vel við athygli og kalli óhikað eftir henni. „Þá vælir hann og mjálmið í honum líkist helst gelti! Hann nýtur þess að fá athygli frá gestum líka. Það hefur því orðið mikil breyting á, hann var vanur að fara undir sófa þegar gestir komu og þeir sáu aldrei til hans. Núna vill hann að þeir klappi sér.“ Óskar bæði klappar Bergi og heldur á honum án mótmæla og áður en þeir fluttu þangað sem þeir félagar búa núna fór Bergur inn til Óskars á nóttunni og svaf uppí hjá honum. „Ég varð hins vegar að flytja og við það kom aftur upp óöryggi hjá honum. Núna heldur hann sig mest úti á svölum og þar hef ég kassann hans.“ Það liggur svo fyrir að hagir Bergs og Óskars munu breytast enn á ný. „Nú verður hann að flytja aftur greyið, og í þetta sinn er það á suðurströnd Bretlands svo hann verður að fá sprautur á undan,“ segir Óskar. Bergur hefur verið inniköttur eftir að hann kom til Óskars og telur Óskar skynsamlegast að Bergur verði áfram inniköttur í Bretlandi. „Það væri reyndar gaman ef það væri smá verönd svo hann gæti rekið trýnið aðeins út fyrir. Ég er reyndar enn að leita mér að íbúð úti, svo virðist sem leigusalar séu ekki hrifnir af köttum, því miður. Bergur flytur samt með mér, annað kemur ekki til greina.“

Er nú loksins farið að líða vel hjá Óskari

Afskaplega ljúfur köttur

Óskar segir að giskað hafi verið á í byrjun að Bergur væri sennilega 10 ára en segir nú að Bergur sé sennilega eitthvað eldri. „Hann er ekki mjög sprækur í hreyfingum og stekkur t.d ekki upp í sófann heldur klifrar. Hann hleypur heldur ekki, heldur hálf-skokkar, og þegar hann gengur haltrar hann örlítið. Mér finnst líklegt að hann sé kannski með smá gigt og stirða liði. Þetta er því orðinn eldri köttur.“ Ekkert hefur samt fundist að hjá Bergi þegar hann fer í skoðun og er hann hraustur að öðru leyti. „Ég á því von á nokkrum góðum árum með honum.“ Óskar segir að í dag megi segja að Bergur sé orðinn að venjulegum heimilisketti. „Mér og öðrum sem til hans þekkja finnst mjög líklegt að Bergur hafi ekki verið villiköttur, heldur heimilislaus húsköttur. Hann er voða ljúfur í sér og er góður félagi í dag. Hann sækist eftir félagsskap mínum og leyfir mér sko ekki að hanga á fésinu lengi án þess að bursta honum eða klappa. Ég fæ ómælda gleði af því að hafa hann í kringum mig,“ segir Óskar að endingu.

Við óskum þeim Bergi góðrar ferðar út og vonumst að sjálfsögðu til þess að fá að heyra af því hvernig Bergi, frægasta ketti Íslands, vegnar á erlendri grundu.

 

Texti: Sigrún Erna Geirsdóttir
Myndir: Óskar Halldórsson

Birtist fyrst í fréttabréfi Kynjakatta, 2.tbl. 24.árgangur 2014.