Fyrsti Maine Coon kötturinn á Íslandi

Fyrsti Maine Coon kötturinn sem vitað er um á Íslandi var Swanycoons Bjorn Again en hann kom til Íslands árið 2000 með Melanie og Jeffrey Plummer. Jeffrey starfaði hjá Hernum á Keflavíkurflugvelli og tók köttinn með sér frá Bandaríkjunm. Bjorn Again var skráður hjá CFA, en hann átti ekki afkvæmi á Íslandi. Hann fékk þó að kíkja sem heiðursgestur á sýningu hjá Kynjaköttum árið 2001. Bjorn Again lést síðan úr veikindum 2004.

Melanie og Jeffrey „Jay“ Plummer komust fyrst í kynni við Maine Coon ketti þegar þau bjuggu í Nebraska í Bandaríkjunum þar sem Jay lærði til prests. Þar kynntust þau Annette sem var með Maine Coon ræktunina Swanycoon. Þau fengu hjá henni feimna Maine Coon læðu sem kölluð var Bea. Annette vildi gjarnan að þau eignuðust félagslyndari kött og bauð þeim því kettling sem hét Bjorn in the USA (með tilvísun í lag Bruce Springsteen). Plummer hjónin höfðu ekki tök á að taka við kettling á þeim tímapunkti svo Bjorn in the USA fór til annarar fjölskyldu.

Snemma árs 1997 hafði Annette samband og var þá með fresskettling undan sömu foreldrum og Bjorn in the USA. Kettlingurinn hafði ennfremur svipaða litasamsetningu og eldri bróðir sinn og hlaut því nafnið Bjorn Again. Þegar þarna var komið sögu höfðu aðstæður Melanie og Jay breyst og tóku þau því með glöðu geði við Bjorn litla. Melanie starfaði á hjúkrunarheimili og tók Bjorn Again með sér í vinnuna einu sinni í viku þar sem hann þjónaði hlutverki meðferðar-kattar, íbúum heimilisins til mikillar gleði. Melanie sýndi Bjorn Again á sýningum CFA (Cat Fanciers Association) og gekk það svo vel að Bjorn hlaut titilinn Grand Premier.

Tvö ár liðu og Jay gekk í herinn og var í tengslum við það sendur til Íslands til starfa. Bjorn Again fylgdi fjölskyldu sinni til Íslands og varð þar með fyrsti Maine Coon kötturinn á Íslandi, þetta var árið 2000. Bjorn Again var sýndur á haustsýningu Kynjakatta árið 2001.

Melanie hafði lengi þjáðst af astma en eftir að þau fluttu til Íslands fóru einkennin síversnandi. Að lokum fór svo að ekki var annað í stöðunni en að finna nýtt heimili fyrir Bjorn Again. Það fundu þau hjá annari fjölskyldu sem bjó á varnarsvæðinu og áttu sjálf Maine Coon kött. Fjölskyldufaðirinn var krabbameinssjúklingur og mynduðust fljótlega sterk bönd á milli hans og Bjorn Again. Plummer hjónin fluttu frá Íslandi haustið 2002 og tveimur árum seinna fengu þau þær fréttir að eigandi Bjorn Again hefði látist úr veikindum sínum. Melanie var það huggun að hennar ástkæri Maine Coon köttur hefði verið til staðar fyrir nýja eiganda sinn í þessum erfiðu veikindum og veitt fjölskyldunni stuðning.

Melanie mun aldrei gleyma Bjorn Again og skoðar oft úrklippubók og rifjar upp góða tíma með dásamlegum vinum sínum og kattavinum á Íslandi. Hún er stolt og þakklát fyrir að Bjorn Again hafi fengið að vera hluti af sögu Kynjakatta með því að vera fyrsti Maine Coon kötturinn á sýningu félagsins.

 


Birtist fyrst í fréttabréfi Kynjakatta, 2.tbl. 21.árgangur 2011.