Hráfæði fyrir ketti

Kettir eru kjötætur sem reiða sig á dýravef til að fullnægja næringarþörf sinni. Í náttúrunni reiða kettir sig á bráð sem hefur hátt magn próteina með hæfilegri fitu og lágmarks kolvetnum.

Hvað efnaskipti varðar eru kettir aðlagaðir að meltingu á próteinum frekar en kolvetnum ólíkt hundum og öðrum alætum. Kettir geta nýtt sér kolvetni fyrir orku en geta ekki skipt próteini út fyrir kolvetni.

Náttúruleg fæða katta byggist á kjöti til dæmis af nagdýrum og fuglum sem inniheldur lítiðaf kolvetnum því kettir eru byggðir til að nýta orku úr próteini og fitu. Kettir eru háðir því að fá ýmsar amínósýrur eins og taurine, arginin, methionine og cysteine úr fæðunni. Því er dýravefur sem inniheldur þessar amínósýrur tilvalin fæða.

Bragðskyn katta

Kettir laðast ekki að sætu bragði af mat eins og mannskepnan og jafnvel hundar gera heldur velja frekar mat með kjöt- og fitubragði. Kettir hafa þróast þannig að taka mestan vökva úr bráðinni sem þeir lifa á, í umhverfi þar sem oft var ekki vatn á hverju strái. Kettir hafa því minni næmni fyrir þorsta og ofþornun en hundar og aðrar alætur, og eiga til að drekka of lítið ef þeir éta einungis þurrmat sem inniheldur lítinn vökva.

Til að líkja eftir náttúrulegri fæðu katta hafa margir farið að skoða hráfæði sem samanstendur af hráu kjöti (oftast kjúklingur) sem og innmat, beinum, eggjum og olíum og á þetta að líkja eftir lítilli bráð eins og fugli eða mús í samsetningu. Þetta fæði, ef rétt samsett, ætti að uppfylla allar næringarþarfir kjötætu eins og kattarins.

Ekkert að óttast

Þar sem um hráan kjúkling er að ræða þá hræðast margir salmonellusmit. Hundar og kettirhafa þróast til að éta villta bráð og því er meltingarkerfi þeirra sem og ýmis konar seytiefni eins og magasýrur og gall með mikla bakteríudrepandi virkni. Salmonella er meira að segja oft hluti af venjulegri bakteríuflóru katta. Heilbrigðir kettir og hundar þola mikið magn af framandi bakteríum í meltingarkerfið án þess að þeir finni nokkuð fyrir því og ef köttunum er ekki gefinn meltingarvegur dýra (magi, smáþarmar og ristill) þá ættu ekki að vera líkur á sníkjudýrum heldur.

Hráfæði fyrir ketti samanstendur einungis af kjöti og innmat enda eru kettir kjötætur og þurfa ekki grænmeti eða aðrar plöntuafurðir til vaxtar og viðhalds. Passa þarf upp á að rétt hlutfall sé á milli kjöts, beina og innmats þar sem of mikið af beinum getur valdið hægðatregðu og of mikið af innmat getur valdið niðurgangi. Heill kjúklingur með beini inniheldur fullkomið hlutfall kjöts og beina og er því tilvalið að nota hann í hráfæðisuppskriftir líkt og gert er í eftirfarandi uppskrift:

  • 2 kg heill kjúklingur með beini
  • 400 g hjörtu (má vera svína, kinda, nauta eða hvaðeina sem og lifrin og nýrun)
  • 100 g lifur
  • 100 g nýru
  • 3-4 egg
  • lítil dós af sardínum eða laxaolíu (salmon oil)

Einnig er gott að bæta við eins og hálfum lítra af vatni eða meira.

Kjúklingur saxaður niður í bita (gott að nota kjötöxi) með beinum, hjörtu í minni bita og lifur og nýru í mjög litla bita. Hjörtu innihalda mikið af amínósýrunni taurine sem er köttum mikilvæg.

Geymsluþol hráfæðisins

Þar sem gefa þarf hráfóður innan ákveðins tíma (vegna geymsluþols fóðursins í stofuhita) þá er gott að venja köttinn á sérstaka matmálstíma áður en farið er á fullt í hráfóðurspælingar. Þegar kötturinn er orðinn vanur því að éta tvisvar til þrisvar á dag er hægt að venja hann á hráfóður. Best er að byrja á litlum beinlausum kjúklingabitum (þar sem fyrir ketti sem hafa verið eingöngu á þurrfóðri eru seigir kjúklingabitar nóg í byrjun). Kettinum mun kannski finnast þetta skrítið og bíður kannski eftir þurrfóðrinu sínu í staðinn en ef kötturinn er ekki að éta nóg í byrjun er betra að gefa honum smá blautmat með til að venja hann af þurrfóðrinu strax.

Þegar kötturinn er orðinn vanur því að éta hráan kjúkling, sem getur tekið smá tíma, þá er hægt að bæta við bitum með beini í og er þá best að byrja á rifbeinum sem eru lítil og auðveld fyrir byrjanda. Þegar kötturinn er farinn að borða kjúklingabita bæði með og án beins í smá tíma er hægt að bæta við innmat. Best er að byrja á hjörtum þar sem það er bara kjöt og eru mestu líkurnar á að kötturinn éti það með bestu lyst. Næst má bæta við nýrum og lifur sem hefur verið skorin mjög smátt.

Þegar kötturinn er farinn að éta öll innihaldsefni uppskriftarinnar er hægt að blanda þessu öllu saman í eina kássu sem svo er hægt að skipta í hæfilegar stærðir í lokanlega poka eða hentuga dalla og því skellt í frysti. Gott er að láta tveggja daga skammt í ílátið.

Þumalputtaregla í magni af hráfæði á dag er 3-5% af líkamsþyngd kattarins skipt niður í tvær-þrjár máltíðir á dag (mega þó alveg vera fleiri) en kettlingar mega fá það magn sem þeir koma niður sem getur þess vegna farið yfir þessi 5%. Fylgjast þarf með kettinum hvort hann sé að þyngjast (ef hann má ekki við því) eða léttast eða hvort hann sé alltaf svangur og þá aðlaga magnið eftir því. Þar sem geymsluþol matarins er ekki langur í stofuhita þarf að taka hann og setja í ísskáp innan 15 mínútna ef eitthvað er eftir í skálinni.

Köttur á hráfæði drekkur stundum lítið sem ekkert en þó þarf ekki að hafa áhyggjur enda er kötturinn að fá mikinn vökva úr hráfæðinu og þarf oft ekki auka vökva. Hráfæði krefst meiri vinnu af eiganda kattarins en að kaupa poka af fóðri út í dýrabúð en á móti kemur að þetta er langoftast ódýrara og að gera mat fyrir mánuðinn þarf ekki að taka svo langan tíma þegar þetta er komið upp í vana.

 

Grein eftir: Herdísi Evu Hermundardóttur,
birtist fyrst í fréttabréfi Kynjakatta, 1.tbl. 24.árgangur 2014.

 

Heimildir
Balmforth, L. Cats Completely Raw And Proud (Cat CRAP). Facebook.
Becker, K. (2010, November 22). Dont Worry About Salmonella When Feeding Raw to Your Cats.
http://felineinstincts.com/dontworryaboutsalmonellawhenfeedingrawtoyourcats/ sótt 1.mars 2014
Zoran, D. L. (2002). The carnivore connection to nutrition in cats. Journal of the American Veterinary Medical Association, 221(11), 1559–1567.