Mataræði og heilsufar katta

Maine Coon kötturinn Hiro að borða fisk Maine Coon kötturinn Hiro að borða fisk

Margir kattaeigendur gefa köttunum sínum þurrmat því þeim finnst dósamatur of dýr. En afleiðingin af því er oft að kettir veikjast og menn geta setið uppi með mikinn sjúkrakostnað. 

Jafnvel ódýr blautmatur er betri fyrir ketti en nokkur þurrmatur. Rétt mataræði fyrirbyggir marga sjúkdóma sem hljótast af þurrmat.

Kettir þurfa fæði sem inniheldur mikið vatn

Kettir í náttúrulegu umhverfi fá mest af vökvanum sem þeir þurfa úr fæðunni. Bráðin sem þeir éta er um 70% vatn. Þurrfóður inniheldur einungis 5-10% vatn, dósamatur hins vegar um 78%. Það er því ljóst að dósamatur hæfir vatnsþörf katta betur, því kettir verða ekki eins þyrstir og mörg önnur spendýr. Köttur sem fær eingöngu þurrfóður drekkur að vísu meira. Heildarvatnsneysla hans, bæði úr mat og drykk er samt einungis helmingur af því sem kettir á blautmatsfæði innbyrða.

Lítil vatnsneysla eykur verulegu líkurnar á alvarlegum sjúkdómum í nýrum og blöðru, einnig á þvagrásarstíflum sem eru mjög sársaukafullar. Meðferðin er dýr og oft verður köttum ekki bjargað. Það má segja að blautmatur skoli þvagrás katta mörgum sinnum á dag, sem er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir lífshættulegar stíflur, sýkingar, bólgur og jafnvel nýrnabilun sem er ein algengasta dauðaorsök katta.

Kettir þurfa dýraprótein

Kettir eru í eðli sínu hreinar kjötætur og fæðuþörf þeirra er ólík fæðuþörf hunda. Hvað er átt við með hrein kjötæta? Það þýðir að móðir náttúra gerði köttinn þannig úr garði að hann uppfyllir næringarþörfina með dýrapróteini (kjöti og innyflum) - ekki jurtapróteini (korni og grænmeti).

Nauðsynlegt er að muna að öll prótein eru ekki eins

Prótein unnin úr dýrum innihalda allar amínósýrur. (Amínósýrur eru byggingaefni próteina. Það má líkja þeim við hluta úr púsluspili). En prótein úr jurtaríkinu innihalda ekki allar amínósýrurnar sem hreinum kjötætum eru nauðsynlegar.  Þess vegna geta kettir ekki þrifist á jurtafæði, ólíkt t.d. mönnum og hundum (athugið þó að það er ekki mælt með að ala hunda á jurtafæði). Próteinin í þurrmat eru að hluta úr jurtaríkinu, mikið elduð og því ekki eins góð og prótein í blautmat (sem eru aðallega dýraprótein og minna elduð).

Við gefum köttum of mikið af kolvetnum

Þurrmatur (og sumur dósamatur) inniheldur mikið af kolvetnum (korni, kartöflum, baunum o.fl). Nátturuleg fæða katta (nagdýr, fuglar o.þ.h.) er hins vegar mjög próteinrík, inniheldur gnægð af vatni, nokkuð af fitu og innan við 2% af henni eru kaloríur úr kolvetnum. 35-50 % af kaloríum í venjulegu þurrfóðri koma úr kolvetnum. Þetta getur raskað alvarlega sykur/insúlín jafnvægi katta. Góður blautmatur er með um 3-5 % af kaloríum úr kolvetni. Kettir þurfa ekki á kolvetnum að halda, þvert á móti getur of mikið kolvetni í fæði verið heilsuspillandi. Engum dytti í hug að gefa grasætum (hestum og kúm t.d.) kjöt. Af hverju ættum við þá að gefa kjötætum jurtamat með kjötbragði?

Til umhugsunar

Hvers vegna gefum við köttum þurrmat? Svarið er einfalt: kornmatur er ódýr og þurrfóður er þægilegt.

Geta margir kettir lifað á mataræði sem er vatnslítið, kolvetnaríkt og inniheldur mikið af jurtapróteinum? Já, margir geta það.

En höfundurinn kýs að ala kettina sína á fæði sem stuðlar að sem bestri heilsu, sem sagt á blautmat eða heimatilbúnum mat en ekki þurrmat. Það er verulegur munur á að skrimta eða dafna! Gamla klisjan "þú ert það sem þú borðar" er ekki bara orðin tóm. Mataræði er undirstaða góðrar heilsu allra lífvera, líka fjórfættu vina okkar.

 

Útdráttur úr grein eftir Dr. Lisu A. Pierson á catinfo.org.
Birtist fyrst í fréttabréfi Kynjakatta, 2.tbl. 24.árgangur 2014.