Laser í dýralækningum

Laser er meðferðatækni sem nýlega er farið að nota á dýr hér á landi. Við lasermeðferð er notast við geisla sem fer djúpt inn í vefi án þess að skaða þá. Ljóseindirnar smjúga inn í vefinn og örva efnaskiptin í frumunum. Lasermeðferð eykur blóðflæði og með því dregur úr verkjum, bólgum og örvar gróanda. 

Eigendur fylgja dýrunum í þessum meðferðum, nema þegar um meðferðir í aðgerðum er að ræða. Laser er sársaukalaus meðferð, en dýrunum geta þótt þær pínu skrýtnar og tekur oft nokkur skipti fyrir þau að venjast því og venjast umhverfinu. Laserinn er hættulaus en þó má hann ekki komast í augun (enda mjög sterkt ljós) og eru því allir mennskir með hlífðargleraugu og augu dýrsins pössuð mjög vel.

Lasermeðferð hentar ekki ef um blæðandi áverka er að ræða þar sem meðferðin eykur blóðflæðið og getur því aukið blæðinguna. Einnig er ekki ráðlagt að nota meðferðina á krabbamein þar sem ekki er æskilegt að örva krabbameinsfrumur.

Lasermeðhöndlun er hægt að nýta við margskonar kvillum sem sé sárum sem gróa illa, sýkingum í húð, eyrum, endaþarmskirtlum og þvagblöðru. Einnig er laser mikið notaður á skurðsár, beinbrot, tannholdsbólgur og mjúkvefsskaða.


Lasermeðhöndlun hefur reynst vel sem meðferðarúrræði við gigtarsjúkdómum og öðrum lið- eða stoðkerfis vandamálum. Laserinn hentar köttum einstaklega vel þar sem þeir þola oft illa langtíma meðferð með verkjalyfjum. Sem dæmi má nefna læðuna Jósefínu, en hún er haldin slæmri gigt í hnjám sem farin var að há henni. Verkjalyf voru ekki ákjósanlegur valkostur fyrir hana en laser meðhöndlun breytti hennar líðan.

Hversu oft þarf að koma er oft persónubundið milli dýra og ástæðu meðferðarinnar. Reglan er þó að örar meðferðir fyrst, til dæmis annan hvern dag gefa besta raun og framhaldsmeðferð er frá því að vera aðra hverja viku til einu sinni í mánuði.

Dýrið þarf að fara í gegnum greiningaferli áður en lasermeðferð er hafin. Ástæða þess er að útiloka eða staðfesta undirliggjandi kvilla sem ætlunin er að meðhöndla.

 

Texti og myndir: Dýraspítalinn í Garðabæ
Birtist fyrst í fréttabréfi Kynjakatta, 2.tbl. 24.árgangur 2014.