Nýr köttur á heimilinu

Amazing Elva´s Rose-Red Amazing Elva´s Rose-Red

Að eignast nýjan kött eða kettling getur verið vandmeðfarið, sérstaklega ef öllum á heimilinu á að koma saman ef þar eru fleiri dýr nú þegar.

Heimferðin

Ólíkt hundum finnst flestum köttum ekki gaman að ferðast í bíl. Æskilegt er að ferðast alltaf með þá í búrum og er það bæði vegna öryggi þíns og kattarins. Margir kettir eru einfaldlega mjög hræddir í bíl og geta því valdið tjóni eða jafnvel bílslysi nú eða einfaldlega hlaupið burt þegar bílhurð er opnuð.

Heimkoman

Þegar komið er heim í fyrsta skipti með nýjan kött eða kettling er best að fara með hann inní herbergi sem hægt er að loka, helst sem snýr í burtu frá traffík svo engin læti séu fyrir utan gluggann. Komið þar fyrir kattaklósetti, mat, drykkjarvatni og bæli. Hafið glugga lokaða eða vel girta svo kötturinn geti ekki sloppið út. Kötturinn er eflaust nokkuð hræddur (sérstaklega ef um eldri kött er að ræða eða nýkominn úr Kattholti) og það gæti tekið hann nokkra daga eða vikur að aðlagast nýja umhverfinu.

Ef hægt er reynið að hafa kattaklósettið áfram á sama stað eftir að þið opnið hurðina fram svo kötturinn rati alltaf á sama stað til þess að gera þarfir sínar. Ef það gengur ekki er sniðugt að vera með tvo dalla fyrir sand til að byrja með. Setja nýja dallinn þar sem hann á að vera en hafa hinn áfram í herberginu þar sem kötturinn var fyrst. Síðan þegar ljóst er að kötturinn er farinn að nota nýja dallinn má fjarlægja hinn.

Kötturinn kynntur fyrir heimilinu

Að kynna köttinn fyrir öllu heimlinu getur tekið smá tíma. Kötturinn þarf fyrst að kynnast eiganda sínum aðeins og finna að hann geti treyst honum. Kötturinn þarf að vera orðinn rólegur og öruggur svo hægt sé að kynna hann fyrir öðrum heimilisdýrum, séu þau til staðar.

Sé nýji kötturinn úr Kattholti er mælt er með að láta líða 14 daga áður en kötturinn er kynntur, það er aðallega til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu smitsjúkdóma.

Passið einnig að sýna öðrum dýrum á heimilinu ást og alúð líka, því þau finna að það er komin ný lykt inná heimilið og þau þurfa að finna að þau séu elskuð og séu ekki að missa heimilið sitt fyrir nýja dýrinu.

Það getur tekið margar vikur og jafnvel mánuði fyrir öll dýrin til að aðlagast. Fyrstu kynni ættu einungis að vera að þefa af hvor öðrum í sitthvoru rýminu, þ.e.a.s. setjið nýja köttinn fram til að leyfa honum að kynnast öðrum herbergjum hússins og setjið heimilisdýrin sem voru fyrir inní herbergið sem nýji kötturinn var.

Eftir að þeir eru búnir að kynnast lyktinni af hvor öðrum má fara í það að kynna þá augliti til auglits. Ef hægt er skal það vera fyrst í gegnum net, gler eða búr, bara svo þeir lendi ekki í slag. En auðvitað er það misjafnt eftir köttum hvernig þeir taka þessum nýja inná heimilið. Passið bara að vera hjá þeim fyrstu dagana eftir að þeir fá að hittast til að geta skakkað leikinn ef á þarf að halda.

Það margfallt borgar sig að flýta ekki þessu ferli því þeir þurfa aðlögunartíma til að venjast nýjum aðstæðum og öðrum dýrum á heimilinu.

Aðstoð við að róa dýrin

Gott ráð er að kaupa Feliway (ferómón eða lyktarhormón) sem stungið er í samband og dreifist þá "lyktin" um íbúðina. En við mannfólkið finnum enga lykt af þessu. Þessi efni draga úr streitu og kvíða hjá dýrunum, og engin hætta er á aukaverkunum. Það tekur í kringum sólarhring fyrir efnið til að byrja að virka.

Feliway fæst án lyfseðils hjá flestum dýralæknum.

 

Texti eftir Jónu Dögg Sveinbjörnsdóttur, 2014