Að eignast ættbókarfærðan kött eða kettling

IS*Ice Viking´s Bangsi IS*Ice Viking´s Bangsi

Kaupendur ættbókafærðra katta þekkja ekki alltaf rétt sinn en hér verða helstu reglur útskýrðar.

Ættbók

Ættbók á alltaf að fylgja með köttum, hvort sem þeir eru gefins, ekki að fullu greiddir eða ekki búið að fylla öll skilyrði sölusamnings. Þú sem kaupandi/nýr eigandi átt rétt á að fá ættbókina afhenda með kettinum. Þessi regla er skýr í 5. gr.: ,,Reglur Kynjakatta um útgáfu ættbóka”.
Þar kemur jafnframt fram að ræktandi hefur heimild til að fresta eigendaskiptum þar til ákvæði í kaupsamningi eru uppfyllt.

Eigendaskipti

Eigendaskipti eru mikilvæg, án þeirra getur þú ekki ættbókafært kettlinga undan kettinum og ekki sýnt köttinn á Alþjóðlegum sýningum Kynjakatta. Þar til eigendaskipti hafa verið gerð, er kötturinn lögleg eign Ræktanda. Oft fara ræktendur fram á það að kettlingurinn verði geldur og setja það sem ákvæði í skriflegann kaupsamning, þá er algengt að eigendaskipti séu ekki framkvæmd fyrr en vottorð fyrir geldingu hefur skilað sér til ræktanda. Þegar þú hefur fyllt öll skilyrði í samning átt þú rétt á að fá eigendaskiptablað undirritað af ræktandanum þínum til að senda skráningarstjóra Kynjakatta og fá þannig köttinn skráðann á þitt nafn.

Afhending kettlinganna

Í reglum Kynjakatta og FIFe er tekið fram að kettlinga megi ekki afhenda fyrir 12 vikna aldur. Þetta er gert til að tryggja andlegt heilbrigði kattarins og því mælum við með því að kaupendur kettlinga ýti ekki á eftir ræktendum að afhenda kettling fyrir þann tíma, kattanna sjálfra vegna.
Ræktendur skulu einnig afhenda kettlingana fullbólusetta miðað við aldur, oftast er það ein sprauta miðað við 12 vikna en misjafnt er hversu snemma dýralæknar eru tilbúnir að hefja bólusetningu. Kettlingum skal ávalt fylgja heilsufarsbók frá Dýralækni.

Er kötturinn ekki örugglega skráður hjá Kynjaköttum?

Því miður fara ræktendur ekki alltaf eftir lögum félagsins og erfitt er fyrir félagið að fylgjast með því að slíkt gerist ekki. Því er ekki hægt að fullyrða að kettlingur sem keyptur er af ræktanda auglýstum á heimasíðu Kynjakatta sé eða verði skráður hjá Kynjaköttum. Kaupanda er frjálst að senda fyrirspurn á netfangið skraningarstjori@kynjakettir.is um það hvort ákveðinn kettlingur eða got sé skráð. Ræktendur fá ekki upplýsingar um slíkar fyrirspurnir, þær eru trúnaðarmál á milli þín og skráningarstjóra.

 

Texti unninn af ræktunarráði Kynjakatta 2010