Lög Kynjakatta, Kattaræktarfélags Íslands

Sækja pdf-skjal (122kb)

Lög KKÍ samþykkt: 27.04.2019.

I. kafli: Almenn ákvæði

1. gr.
Félagið heitir Kynjakettir, Kattaræktarfélag Íslands. Aðsetur þess og varnarþing er í Reykjavík.
Félagið er fullgildur meðlimur í Fédération Internationale Féline (FIFé) og er félagið og félagsmenn þess skuldbundnir til að fylgja í einu og öllu lögum, reglum og tilskipunum FIFé.

2. gr.
Markmið og tilgangur félagsins eru eftirfarandi:
1. Að kynna kattaræktun á Íslandi
2. Að gefa út ættbækur og skráningaskírteini fyrir ketti.
3. Að gæta hagsmuna og velferðar katta og kattaeigenda.
4. Að stuðla að samstarfi katta- og dýravinafélaga hér á landi sem og erlendis.

3. gr.
Tilgangi sínum skal félagið meðal annars ná með eftirfarandi leiðum:
1. Að halda reglulega fundi með félagsmönnum.
2. Að halda reglulega kattasýningar.
3. Að standa að útgáfu fræðsluefnis um ketti, kattahald og kattaræktun.
4. Að standa að erlendu samstarfi.

4. gr.
Skipunartími stjórnar er á milli aðalfunda og reikningsár er frá 1. janúar til 31. desember.


II. kafli: Stjórn félagsins

5. gr.
Stjórn skal skipuð 7 félagsmönnum. Kosningar til stjórnar skal auglýsa á tryggilegan hátt í fundarboði aðalfundar. Stjórn skal skipuð formanni, varaformanni, tveimur riturum, tveimur gjaldkerum og sýningarstjóra.

6. gr.
Stjórn Kynjakatta stýrir málefnum félagsins með þeim takmörkunum sem lög þessi setja. Hún tekur ákvarðanir um starfsemi félagsins og er ábyrg fyrir fjárreiðum og skuldbindingum gagnvart öðrum aðilum. Stjórn setur reglur og gjaldskrá félagsins og skipar í nefndir. Aðalfundur ákveður félagsgjöld félagsins.

7. gr.
Þrír stjórnarmenn rita firma félagsins. Formaður og gjaldkerar hafa prókúru félagsins.

8. gr.
Formaður, í fjarveru hans varaformaður, kemur fram fyrir hönd Kynjakatta. Formaður, í fjarveru hans varaformaður, stjórnar fundum stjórnar. Í fjarveru þeirra stjórnar einhver stjórnarmanna fundi samkvæmt ákvörðun hverju sinni.

9. gr.
Ritarar, í fjarveru þeirra einhver stjórnarmanna, rita fundargerðir stjórnarfunda. Ritarar hafa umsjón með vefsíðu félagsins, www.kynjakettir.is og umsjón aðsendra bréfa. Ritarar skulu halda til haga lögum og reglum félagsins og skulu fylgjast með innlendum sem erlendum laga- og reglusetningum. Ritarar skulu sjá til þess að lög og reglur félagsins séu í samræmi við lög og reglur FIFe. Ritarar bera ábyrgð á að félagaskrá félagsins sé uppfærð. Ritarar bera ábyrgð á að ræktunarnafnaskrá félagsins sé uppfærð og annast afgreiðslu umsókna um ræktunarnöfn.

10. gr.
Gjaldkerar bera ábyrgð á bókhaldi félagsins. Gjaldkerar undirbúa fjárhagsáætlun félagsins eitt ár fram í tímann og leggja hana fyrir stjórn til samþykktar fyrir byrjun desembermánaðar ár hvert. Gjaldkerar skulu einnig leggja fyrir stjórn uppgjör vegna sýninga eigi síðar en fjórum vikum eftir hverja sýningu.

11. gr.
Um reikningsár félagsins fer samkvæmt 4. gr. Félagslegir skoðunarmenn félagsins skulu fá reikninga til endurskoðunar eigi síðar en einum mánuði fyrir aðalfund. Skal gjaldkeri leggja endurskoðaða reikninga fyrir stjórn eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund. Reikninga félagsins skal leggja fram á aðalfundi til samþykktar.

12. gr.
Sýningarstjóri ber ábyrgð á undirbúningi og framkvæmd kattasýninga félagsins.

13. gr.
Stjórn skal halda fundi eigi sjaldnar en á sex vikna fresti. Formaður boðar til stjórnarfunda. Stjórnarmeðlimir geta óskað þess að boðað verði til stjórnarfundar og skal hann þá boðaður.

14. gr.
Meirihluti atkvæða ræður á stjórnarfundi. Stjórn telst ályktunarbær, ef meirihluti stjórnarmeðlima situr fund. Ef atkvæði eru jöfn, ræður atkvæði formanns, sbr. þó 8. gr.

15. gr.
Félagsmenn geta beint erindum til stjórnar og annarra embætta félagsins og skal leitast við að afgreiða þau af hlutleysi og án ástæðulausrar tafar. Félagsmanni skal gefinn kostur á að flytja mál sitt á stjórnarfundi, óski hann þess.

16. gr.
Stjórn félagsins skal leita leiða til fjármögnunar félagsins.

17. gr.
Stjórn félagsins getur boðað til almenns félagsfundar til að ræða málefni Kynjakatta við félagsmenn. Formaður Kynjakatta opnar fundinn og tilnefnir fundarstjóra sem stýrir umræðum og fundarritara sem heldur fundargerð. Stjórn er skylt að boða til almenns félagsfundar ef fimmtungur félagsmanna óskar þess með skriflegri beiðni til stjórnar félagsins. Félagsfundir skulu auglýstir með tveggja vikna fyrirvara hið minnsta. Félagsmönnum skal heimilt að koma málum sínum á framfæri á félagsfundum.

18. gr.
Komi fram tillaga um vantraust á stjórn eða einstaka stjórnarmeðlimi skal stjórn boða til félagsfundar, innan tveggja vikna frá þeim tíma er tillagan barst til stjórnar. Fundurinn er lögmætur ef 40 félagsmenn mæta. Tillagan hlýtur samþykki ef þrír fjórðu hlutar fundarmanna greiða henni atkvæði. Hljóti tillaga samþykki skal fundarstjóri boða til aukafundar innan tveggja vikna, með viku fyrirvara hið minnsta. Á þeim fundi skal kjósa bráðabirgðastjórn eða stjórnarmeðlim, sem gegnir embætti fram að næsta aðalfundi. Meirihluti atkvæði ræður kosningu. Framboð til stjórnar skal berast fundarstjóra fyrir upphaf fundar. 

III. kafli: Aðalfundur og kosningar

19. gr.
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal reyna að halda fyrir 1. maí ár hvert. Til fundarins skal boða með í það minnsta 14 daga fyrirvara og telst löglega til hans boðað ef auglýsing er birt í það minnsta í einu af eftirfarandi: heimasíðu félagsins, blöðum félagsins eða á síðum félagsins á samfélagsmiðlum svo sem Facebook.Tillaga hlýtur samþykki ef meirihluti fundarmanna greiðir henni atkvæði nema á annan hátt sé kveðið í lögum þessum.

20. gr.
Mál þessi skulu tekin til meðferðar á aðalfundi:
1. Nefndir gera grein fyrir störfum sínum.
2. Ræktunarráð gerir grein fyrir störfum sínum.
3. Stjórn félagsins gerir grein fyrir störfum sínum.
4. Stjórn félagsins leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins.
5. Ákvörðun félagsgjalda.
6. Lagabreytingar.
7. Kosningar til stjórnar, sbr. þó 22. gr.
8. Kosningar í embætti tveggja félagslegra skoðunarmanna og eins til vara.
9. Kosning þriggja félagsmanna í aganefnd og tveggja til vara, sbr. þó 41. gr.
10. Önnur mál.

21. gr.
Við upphafi aðalfundar skal stjórn félagsins tilnefna fundarstjóra og fundarritara. Fundarstjóri og fundarritari skulu hljóta stuðning meirihluta aðalfundar. Fundarritari ritar gerðarbók aðalfundar og fundarstjóri setur fundinn og stýrir honum samkvæmt reglum um fundarsköp. Fundarmenn geta komið að breytingatillögum við framkomnar tillögur fyrir fundinn og skulu þá skila þeim skriflega til fundarstjóra fyrir upphaf fundar. Þá er fundarstjóra einnig heimilt að taka mál til umræðu, sbr. 10. tl. 20. gr., eftir að fundur hefur verið settur.

22. gr.
Kosningarétt og kjörgengi til stjórnar, aganefndar og embætta félagslegra skoðunarmanna hafa allir fullgildir félagsmenn Kynjakatta sbr. 25 gr., 18 ára og eldri. Stjórn skal auglýsa eftir framboðum ekki síðar en við boðun aðalfundar. Framboð skulu vera skrifleg og hafa borist félaginu ekki síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund. Kosning til stjórnar er til tveggja ára í senn. Á aðalfundi árið 2019 skal kosið til embættis formanns, ritara og gjaldkera. Skal svo kosið til þessara embætta annað hvert ár. Á aðalfundi árið 2020 skal kosið til embættis varaformanns, ritara, gjaldkera og sýningarstjóra. Skal svo kosið til þessara embætta annað hvert ár. Á hverjum aðalfundi skal kosið til embætta tveggja félagslegra skoðunarmanna og eins varamanns.

23. gr.
Ef frambjóðandi er einn í framboði þarf hann 2/3 hluta greiddra atkvæða til að hljóta kosningu. Ef ekki hefur hlotist lögleg kosning í öll embætti skal fundarstjóri kalla eftir framboðum meðal fundarmanna. Hafi þá ekki hlotist lögleg kosning í öll embætti, skal nýkjörin stjórn skipa í laus embætti úr hópi félagsmanna.

24. gr.
Aðeins þeir félagsmenn sem sækja aðalfund hafa kosningarétt. Þó getur félagsmaður sem greitt hefur félagsgjald óskað eftir að greiða utankjörstaðaatkvæði. Slíkum atkvæðum skal skilað til
félagsins skriflega í síðasta lagi tveimur dögum fyrir aðalfund.

IV. kafli: Félagsmenn

25. gr.
Öllum er frjálst að óska eftir félagsaðild, það þarf aðeins að senda félaginu skriflegri umsókn og greiða félagsgjald. Eftir skráningu hjá félaginu fær viðkomandi sent félagsskírteini og telst þá fullgildur meðlimur Kynjakatta. Greiða þarf svo árlega félagsgjald í byrjun árs til að viðhalda réttindum.
Við fyrstu kaup á ættbókar færðum ketti frá ræktanda Kynjakatta gefst kaupanda tækifæri til að gerast meðlimur Kynjakatta endurgjaldslaust út kaupárið. Ef afhending kattarins fer fram það seint á árinu að kaupanda gefst ekki kostur á að sýna á haustsýningum félagsins þá á viðkomandi kost á að fá næsta ár án endurgjalds. Til að nýta þetta tilboð verður kaupandi að skila inn undirritaðri umsókn um félagsaðild til Kynjakatta ásamt upplýsingum um að keyptur hafi verið fyrsti köttur, hvaða köttur og frá hverjum. Eftir skráningu hjá félaginu fær viðkomandi sent félagsskírteini og telst þá fullgildur meðlimur Kynjakatta.
Hver einstaklingur getur aðeins nýtt sér þetta tilboð einu sinni.

26. gr.
Stjórn, að fenginni umsögn aganefndar, getur neitað umsækjanda um félagsaðild ef:
1. Viðkomandi hefur sannanlega brotið lög og reglur félagsins eða annars sambærilegs ræktunarfélags.
2.Viðkomandi hefur verið dæmdur eða ávíttur samkvæmt gildandi lögum og reglum um dýravernd.

27. gr.
Í stað félagsgjalds einstaklings má greiða eitt fjölskyldugjald fyrir þá meðlimi fjölskyldu sem óska eftir að vera félagsmenn og hafa sama lögheimili. Senda þarf umsókn um félagsaðild til Kynjakatta með nöfnum og kennitölum þeirra sem njóta eiga auka-félagsaðildar.

28. gr.
Félagsmenn skulu virða lög og reglur félagsins og hafa lög og reglur um dýravernd í heiðri. Þeir skulu einnig gæta þess að eyðileggja ekki orðstír félagsins með ógætilegum athöfnum sem brjóta í bága við almennt siðferði. Í viðskiptum með dýr skulu félagsmenn gæta þess að virða lög og reglur og hafa almennt viðskiptasiðferði í heiðri. Félagsmönnum er óheimilt að selja eða afhenda ketti til gæludýrabúða eða hliðstæðra fyrirtækja.

29. gr.
Stjórn félagsins getur beitt félagsmann viðurlögum hafi hann:
1. Unnið gegn lögbundnum hagsmunum félagsins með orðum eða athöfnum.
2. Brotið ræktunarreglur eða skráningarreglur félagsins eða FIFé.
3. Brotið sýningarreglur félagsins eða FIFé.
4. Brotið gegn 1. eða 2. tl. 26gr.

30. gr.
Félagsmenn og eigenda ræktunarnafna má beita eftirfarandi viðurlögum:
1. Skrifleg áminning eða aðvörun.
2. Bann við notkun ræktunarnafns.
3. Útilokun frá því að gegna embættum félagsins.
4. Útilokun frá sýningum félagsins
5. Útilokun frá skráningu katta í ættbækur.
6. Brottvísun úr félaginu

31. gr.
Hægt er að beita fleiri en einum viðurlögum samtímis samkvæmt 30. gr. Viðurlög samkvæmt 2.-6. tl. 30. gr. geta verið tímabundin eða endanleg. Stjórn hefur aðeins heimild til þess að beita viðurlögum samkvæmt 1. og 4. tl. 30. gr. Sé brýn nauðsyn til, getur stjórn beitt öðrum viðurlögum til bráðabirgða, en þó aðeins hljóti það einróma samþykki stjórnar. Slík bráðabirgðaviðurlög falla úr gildi hafi þau ekki hlotið staðfestingu aganefndar innan fjögurra mánaða. Viðurlagaákvarðanir
stjórnar eru kæranlegar til aganefndar innan fjögurra vikna frá dagsetningu ákvörðunar og skulu slíkar kærur undanþegnar tryggingargjaldi, sbr. 7. ml. 40. gr.

32. gr.
Stjórn félagsins er heimilt að útnefna heiðursfélaga Kynjakatta meti hún tilefni til.

 

V. kafli: Félagsdeildir

33. gr.
Ritnefnd skal skipuð a.m.k. fjórum félagsmönnum, þar af a.m.k. einum stjórnarmanni, auk ritstjóra og skal stjórn að jafnaði skipa í nefndina á fyrsta stjórnarfundi sínum. Nefndarmenn skulu útnefna ritstjóra og ritara nefndarinnar á fyrsta fundi sínum. Ritnefnd skal sjá um útgáfu málgagns Kynjakatta. Ritið skal gefa út að lágmarki einu sinni á ári. Skal ritið telja greinar er varða kattaræktun, heilsu- og velferð katta og annað er tengist málefnum félagsins. Félagsmönnum skal heimilt að koma hugmyndum að efni og greinum á framfæri við ritnefnd. Ef ritnefnd sinnir einnig auglýsingarmálum skal hún skipa auglýsingarstjóra og sinna þá störfum auglýsingarnefndar samkvæmt 38.gr.

34. gr.
Ræktunarráð skal skipað fjórum félagsmönnum, þar af a.m.k. einum stjórnarmanni, auk skráningarstjóra og skal stjórn að jafnaði skipa í ráðið á fyrsta stjórnarfundi sínum. Þá skal stjórn einnig útnefna einn þeirra sem formann ráðsins. Ræktunarráð skal útnefna ritara ráðsins á fyrsta fundi sínum. Ræktunarráð skal hafa umsjón með útgáfu ættbóka og skráningarskírteina í samráði við skráningarstjóra. Ræktunarráð skal einnig sjá um skráningu innfluttra katta. Að öðru leyti fer um ræktunarráð samkvæmt reglum Kynjakatta um útgáfu ættbóka og ræktunar- og skráningarreglum FIFé.

35. gr.
Skráningarstjóri skal skipaður af stjórn á fyrsta stjórnarfundi úr hópi félagsmanna, en verkefni hans er að sjá um útgáfu ættbóka og skráningarskírteina.

36. gr.
Sýningarnefnd skal a.m.k. skipuð fjórum félagsmönnum auk sýningarstjóra og skal stjórn að jafnaði skipa í nefndina á fyrsta stjórnarfundi sínum. Nefndarmenn skulu útnefna yfirdómþjón, ritara nefndarinnar, og ritara sýninga á fyrsta fundi sínum. Yfirdómþjónn skal hafa umsjón með dómþjónum á sýningum, ritari nefndarinnar skal halda utan um skráningargögn sýninga. Ritari sýninga skal skrá úrslit sýninga og tilkynna þau til FIFé

37. gr.
Kattasýningar skulu haldnar minnst einu sinni á ári og vera opnar almenningi. Um aðgang sýnenda fer eftir sýningarreglum félagsins og FIFé. Sýningar skulu kynntar félagsmönnum með tveggja mánaða fyrirvara, hið minnsta.

38. gr.
Ef ritnefnd sér ekki um auglýsingarmál þá skal auglýsingarnefnd skipuð a.m.k. þremur félagsmönnum og skal stjórn að jafnaði skipa í nefndina á fyrsta fundi sínum. Þá skal stjórn skipa einn þessara aðila sem auglýsingastjóra. Auglýsingastjóri ber ábyrgð á auglýsingum á vegum félagsins ásamt því að afla auglýsinga fyrir sýningar, fréttabréf, netsíðu og aðra þá miðla sem félagið kemur auglýsingum frá sér og öðrum á framfæri. Þegar seldar eru auglýsingar, básar o.fl. skal skila inn við fyrsta tækifæri undirrituðum samningi fyrir því til gjaldkera félagsins sem sér um innheimtu gjalda. Auglýsinganefnd sér einnig um að afla verðlauna fyrir kattasýningar í samráði við sýningarstjóra.

39. gr.
Aganefnd skal skipuð þremur félagsmönnum og tveimur til vara. Aðalfundur skal skipa nefndina á fundi sínum árið 2019 og á þriggja ára fresti þar eftir. Aganefnd hefur úrskurðarvald í málum sem fjalla um brot félagsmanna á félagslögum, ræktunarreglum og skráningarreglum, hafi stjórn félagsins tekið ákvörðun í málinu. Aganefnd skal vera stjórn til samráðs, sbr. 26. gr. Þá er stjórn heimilt að vísa öðrum málum til nefndarinnar til úrskurðar eða álits. Aganefnd skal heimilt að setja sér starfsreglur innan ramma þessara laga. Sé einn nefndarmanna vanhæfur vegna tengsla við mál skal varamaður taka sæti í því máli. Kærur til aganefndar skulu vera skriflegar og skal fylgja þeim trygging að upphæð 10.000 kr. og getur nefndin ákveðið að tryggingin endurgreiðist kæranda, falli úrskurður honum í hag. Ákvarðanir nefndarinnar eru endanlegar og bindandi gagnvart félagsmönnum. Ákvarðanir nefndarinnar skulu birtar í málgagni Kynjakatta. Kynjakettir bera ekki ábyrgð á fjárhagslegu tjóni sem aðilar kunna að verða fyrir vegna umfjöllunar eða úrskurðar nefndarinnar.

40. gr.
Stjórn félagsins er heimilt að mynda félagsdeildir sem fjalla um einstakar kattategundir eða tegundahópa.

41. gr.
Stjórn félagsins getur óskað eftir þátttöku félagsmanna í starfsemi í þágu þess og skipað nefndir ef þess gerist þörf.

 

VI. kafli: Minningarsjóður Þórðar J. Þórissonar

42. gr.
Kynjakettir starfrækja Minningarsjóð Þórðar J. Þórissonar samkvæmt skipulagsskrá sjóðsins.

43. gr.
Félagið leggur fram 7 % af félagsgjöldum sínum í sjóðinn á ári hverju.

VII. kafli: Breytingar á lögum

44. gr.
Lögum félagsins má breyta á aðalfundi eða sérstaklega boðuðum fundi með tveggja vikna fyrirvara, hið minnsta, og þurfa tveir þriðju hlutar fundarmanna að greiða atkvæði með lagabreytingum. Stjórn er skylt að boða til lagabreytingafundar ef fimmtungur félagsmanna óskar þess. Stjórn er heimilt að boða til slíks fundar að eigin frumkvæði. Allir félagsmenn hafa rétt til að koma með tillögur að lagabreytingum. Tillögum til lagabreytinga skal skilað til stjórnar eigi síðar en 20 dögum fyrir boðaðan fund og skal stjórn þá boða fundinn með tveggja vikna fyrirvara, hið minnsta, en þó aldrei fyrr en 3 dögum eftir að tillagan berst. Tillögur skulu auglýstar á tryggilegan hátt. Í fundarboði skal þess getið sérstaklega að tillaga til lagabreytinga verði tekin til meðferðar á fundinum og skal efni hennar lýst. Lagabreyting öðlast gildi frá þeim tíma þegar hún er samþykkt á aðalfundi eða öðrum lagabreytingafundi nema að annað sé tekið fram.

45. gr.
Nú kemur fram tillaga um að félaginu skuli slitið. Skal hún þá sæta sömu meðferð og tillaga til lagabreytinga, skv. 44. gr.

46. gr.
Eignir félagsins skulu notaðar til kattaræktunar, kattaverndunar og til annarra málefna er varða ketti ef félaginu er slitið.

47. gr.
Lög þessi skulu ætíð birt á vefsíðu félagsins, www.kynjakettir.is, þar sem öllum félagsmönnum er heimilaður aðgangur.

48. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.