Aðalfundur 2017

Aðalfundur Kynjakatta varð tvískiptur þetta árið og fór fyrri fundurinn fram sunnudaginn 21. maí en framhaldsfundur sunnudaginn 2. júlí. Það var vegna þess að ekki var unnt að fara yfir ársskýrslu ársins 2016 á fyrri fundinum.

Alls sátu 46 manns fyrri fundinn en 19 þann seinni.

1. Fundarstjóri og fundarritari kosin.

Helga Karlsdóttir býður sig fram sem fundarstjóra og Jóna Dögg Sveinbjörnsdóttir fundarritari.

2. Nefndir gera grein fyrir störfum sínum.

Auglýsinganefnd: Sigríður Rósa Snorradóttir gerði grein fyrir störfum auglýsinganefndar.
Sýningarnefnd: Helga Karlsdóttir gerði grein fyrir störfum sýningarnefndar.
Ritnefnd: Jóna Dögg Sveinbjörnsdóttir gerði grein fyrir störfum ritnefndar.

3. Ræktunarráð gerir grein fyrir störfum sínum.

Ræktunarráð hefur ekkert fram á að færa að þessu sinni.

4. Stjórn félagsins gerir grein fyrir störfum sínum.

Jóna Dögg Sveinbjörnsdóttir las skýrslu stjórnar í fjarveru Guðbjargar Hermannsdóttur formanns.

4. Stjórn félagsins leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins.

Helga Karlsdóttir sýningarstjóri les upp skilaboð frá bókara. Ekki var unnt að klára ársskýrslu fyrir aðalfundinn vegna misræmis í bókhaldi. Framhaldsaðalfundur verður haldinn fljótlega til að klára þessi mál.

5. Ákvörðun félagsgjalda.

Félagsgjöld haldast óbreytt.

6. Lagabreytingar.

Komið hafa fram tillögur um lagabreytingar:

A) Óskað er eftir breytingu á lögum sem samþykkt voru á aðalfundi 2016 um útgáfu ættbóka.

2. gr. er svohljóðandi:

„Félagsmenn KKÍ skulu sækja um ættbækur fyrir alla kettlinga sem þeir rækta og skal skrá alla kettlinga í goti samtímis. Umsóknir skulu vera á þar til gerðum umsóknareyðublöðum sem fást hjá KKÍ hverju sinni. Með umsókn skulu fylgja þau gögn sem tilgreind eru á umsóknareyðublöðunum. Pörunarvottorð, undirritað af eiganda fresskattarins, skal fylgja umsókn um ættbækur. Undanþága frá þessari reglu er veitt vegna katta sem ekki uppfylla kröfur um RIEX eða LO skráningu. [Á umsóknareyðublaði skal tilgreina staðlað og einstakt örmerki allra kettlinga sem fæddir eru eftir 1. júlí 2006 og skal fylgja umsókninni staðfesting dýralæknis um að kettlingarnir hafi verið örmerktir.“

Breyting:

„Ræktendur KKÍ skulu sækja um ættbækur fyrir alla kettlinga sem þeir rækta og skrá alla kettlinga í goti samtímis. Umsóknir skulu vera á þar til gerðum umsóknareyðublöðum sem fást hjá KKÍ hverju sinni. Með umsókn skulu fylgja þau gögn sem tilgreind eru á umsóknareyðublöðum. Pörunarvottorð, undirritað af eigand fresskattarins skal fylgja umsókn um ættbækur. Undaþága frá þessari reglu er veitt vegna katta sem ekki uppfylla kröfur um RIEX eða LO skráningu. ( Á umsóknareyðublaði skal tilgreina staðlað og einstakt örmerki allra kettlinga sem fæddur eru eftir 1. júlí 2006 og skal fylgja umsókninni staðfesting dýralæknis um að kettlingar hafi verið örmerktir) 1* Ræktendur skulu fylgja reglum FIFe eum genarannsóknir og framkvæma aða lágmarki þær genarannsóknir ( DNA) á ræktunardýrum sínum sem kveðið er á um í lögum og reglum FIFe, niðurstöður skulu varðveittar hjá KKÍ.“

Neðangreindar undirgreinar 2.1, 2.2 og 2.3 verði felldar niður:

2.1. gr.
Þegar ræktaðir eru Maine Coon kettir:2

  • Á öllum ræktunardýrum skal framkvæma DNA próf fyrir MyBPC3 geninu (HCM - Hypertropic Cardiomyopathy), nema að sannað sé að báðir foreldrar dýrsins séu ekki berar af MyBPC3.
  • Skírteini frá rannsóknarstofu skulu bera skýrt og greinilega örmerki viðkomandi ræktunardýrs.- Skráningarstjóri skal skrá MyBPC3 stöðu foreldra afkvæma skilmerkilega í ættbók.
  • Berar af MyBPC3 má ekki para saman við aðra bera af MyBPC3 (tekur gildi 01.01.2019).

2.2. gr.
Þegar ræktaðir eru Norskir Skógarkettir:

  • Á öllum ræktunardýrum skal framkvæma DNA próf fyrir GBE-1 geninu (GSD IV – glycogen storage diease), nema að sannað sé að báðir foreldrar dýrsins eru ekki berar af GSD IV.
  • Skírteini frá rannsóknarstofu skulu bera skýrt og greinilega örmerki viðkomandi ræktunardýrs.
  • Skráningarstjóri skal skrá GSD IV stöðu afkvæma skilmerkilega í ættbók.
  • Berar af GSD IV má ekki para saman við aðra bera af GSD IV

2.3. gr.
Þegar ræktaðir eru Ragdoll kettir:3

  • Á öllum ræktunardýrum skal framkvæma DNA próf fyrir MyBPC3 geninu (HCM - Hypertropic Cardiomyopathy), nema að sannað sé að báðir foreldrar dýrsins eru ekki berar af MyBPC3.
  • Skírteini frá rannsóknarstofu skulu bera skýrt og greinilega örmerki viðkomandi ræktunardýrs.
  • Skráningarstjóri skal skrá MyBPC3 stöðu foreldra afkvæma skilmerkilega í ættbók.
  • Berar af MyBPC3 má ekki para saman við aðra bera af MyBPC3 (tekur gildi 01.01.2019).

Tillagan fékk 40 atkvæði með en Marteinn T. Tausen kemur með tillögu um að fresta lagabreytingartillögunni um HCM, eða draga til baka þar til hægt er að fara yfir þetta með heilsufarsráði FIFé. Fundarmenn samþykkja að stjórn tali við FIFé og fái aðstoð við að setja tillöguna betur fram.

 

B) Stjórn Kynjakatta leggur fram tillögu að viðbót um lagabreytingu:

49. gr
Óheimilt er að nota læðu 7 ára eða eldri til undaneldis nema með heilbrigðisvottorði frá dýralækni þar sem heilsan hennar er talin vera nægilega góð til að eiga got. Vottorðið verður vera gefið út fyrir pörun.

Aliosha Romero bendir á reglur í lögum FIFé í kafla 3.1. um ræktunarrelgur um að þessi lagabreyting sé ekki lögleg.
Marteinn mælir með að stjórn taki þessa tillögu til baka.
Lagabreytingartillagan er því felld niður.

 

C) Stjórn leggur fram tillögu um breytingu á gr. 18 í lögum Kynjakatta:

18. gr í lögum Kynjakatta hljóðar svona:

"Komi fram tillaga um vantraust á stjórn eða einstaka stjórnarmeðlimi skal stjórn boða til félagsfundar, innan tveggja vikna frá þeim tíma er tillagan barst til stjórnar. Fundurinn er lögmætur ef tveir þriðju hlutar félagsmanna mæta. Tillagan hlýtur samþykki ef þrír fjórðu hlutar fundarmanna greiða henni atkvæði. Hljóti tillaga samþykki skal fundarstjóri boða til aukafundar innan tveggja vikna, með viku fyrirvara hið minnsta. Á þeim fundi skal kjósa bráðabirgðastjórn eða stjórnarmeðlim, sem gegnir embætti fram að næsta aðalfundi. Meirihluti atkvæði ræður kosningu. Framboð til stjórnar skal berast fundarstjóra fyrir upphaf fundar."

Breyting:

"Komi fram tillaga um vantraust á stjórn eða einstaka stjórnarmeðlimi skal stjórn boða til félagsfundar, innan tveggja vikna frá þeim tíma er tillagan barst til stjórnar. Fundurinn er lögmætur ef 40 félagsmenn mæta. Tillagan hlýtur samþykki ef þrír fjórðu hlutar fundarmanna greiða henni atkvæði. Hljóti tillaga samþykki skal fundarstjóri boða til aukafundar innan tveggja vikna, með viku fyrirvara hið minnsta. Á þeim fundi skal kjósa bráðabirgðastjórn eða stjórnarmeðlim, sem gegnir embætti fram að næsta aðalfundi. Meirihluti atkvæði ræður kosningu. Framboð til stjórnar skal berast fundarstjóra fyrir upphaf fundar."

Aliosha Romero og Marteinn T. Tausen benda báðir á að hafa sérstaka tölu gæti skapað vandamál ef félagsmönnum fækkar hjá félaginu. Tillagan er þó samþykkt með 51 atkvæði með.

7. Kosningar til stjórnar.

Í framboði til formanns voru Sigurður Ari Tryggvason og Aliosha Romero.
Sigurður var kosinn formaður með 44 atkvæðum á móti 31.

Tvær voru í framboð til gjaldkera, þær Ása Björg Ásgeirsdóttir og Íris Ebba Ajayi. Íris var kjörinn gjaldkeri með 50 atkvæðum á móti 25.

Sigríður Þóra Gabríelsdóttir var ein í framboði til ritara og hlaut 49 atkvæði með.

Stjórn ljáðist að taka fram á fundinum hversu mörg atkvæði þyrfti til að ná kjöri en það þarf ⅔ hluta fundarmanna að samþykkja og þurfti því 50 atkvæði til að ná kjöri en samtals voru atkvæðaseðlar 75. Því verður liðurinn fyrir ritarann tekinn upp á framhaldsaðalfundi.

8. Kosningar tveggja félagsmanna til að endurskoða ársreikninga og einn til vara.

Aðalfundur samþykkti einróma eftir farandi aðila:
Gísli Guðnason, Kristín Holm og Anna María Moestrup.

9. Kosning þriggja félagsmanna í aganefnd og tveggja til vara, sbr. þó 41. gr.

Kosið var í aganefnd: Rósa Jónsdóttir, Anna María Moestrup og Birna Hrafnsdóttir. Til vara: Jón Magnússon og Thelma Rut Stefánsdóttir.

10. Önnur mál

  • Sigurður Ari Tryggvason og Sigríður Tóta Gabríelsdóttir vekja tals á sýningarforminu en þau vilja meina að fólk sem er að mæta með gæludýrið sitt er óánægt, þar sem það eru færri sem eru að vinna heldur en með gamla sýningarforminu.
  • Marteinn spyr út í Minningarsjóð Þórðar J. Þórissonar. Guðný Ólafsdóttir svarar að stjórn hafi ákveðið að hætta að borga tímabundið í sjóðinn vegna peningaskorts. Marteinn bendir á það sé í lögum félagsins að borga eigi í sjóðinn. Stjórn mun skoða þetta mál betur og fara yfir á framhaldsaðalfundi.
  • Birna Hrafnsdóttir spyr hvort hægt sé að hafa aðalfund annarsstaðar en í miðbæ. Stjórn mun skoða það.
  • Aliosha bendir á að það þurfi að vera meiri útskýring á hvers vegna er verið að leggja fram lagabreytingar fyrir aðalfund.
    Marteinn býður sig fram við að hjálpa til við að skrifa lagabreytingar.
  • Jón spyr hvers vegna húskettir fái niðurgreidd sýningargjöld og hvers vegna þeir séu með á sýningum sem eru þó aðallega fyrir hreinræktaða ketti. Stjórn svarar að það séu tvær ástæður fyrir því: það að smala þurfi oft köttum á sýningar til að ná tölunni 100 og með því að hafa lægri gjöld fyrir húsketti sem safna ekki stigum er hægt að fá fleiri húsketti með.
  • Aliosha bendir á að það sé skrítið að ekki sé búið að hafa fund hjá Kynjaköttum til að fara yfir proposals fyrir aðalfund FIFé. Marteinn leggur til að haldinn sé ávalt fundur fyrir aðalfund með þeim félagsmönnum sem hafa áhuga á.
  • Siggi spyr hvað fólki finnst um dagsetningar vorsýninga.

Fundur endaði kl. 18:30 en er ekki slitið.

 

Framhaldsaðalfundur hefst kl. 18, sunnudaginn 2. júlí 2017

1. Ávarp formanns

Guðbjörg Hermannsdóttir setur fundinn og fer yfir dagskrá fundarins. Stjórn biðst afsökunar á nokkrum liðum sem fóru úrskeiðis á fyrri aðalfundi.

2. Ársskýrslan 2016

Íris Ebba Ajayi gjaldkeri og Heiveig María Einarsdóttir bókari fara yfir ársskýrsluna. Heiðveig útskýrir fyrir fundarmönnum hvaða villur sé að finna í bókhaldinu og hvernig hún gat leiðrétt þær til að klára skýrsluna. Margt hefur verið bókað vitlaust í gegnum árin og því þurfi að afskrifa þær færslur til að fá bókhaldið til að stemma.
Stjórn Kynjakatta ákvað að ekki væri hægt að fara í dýpri aðgerðir aftur í tímann til að rétta bókhaldið alveg við, því það er mjög kostnaðarsamt og ekki til peningur fyrir slíkum aðgerðum. Héðan af mun verða passað betur upp á bókhaldið og munu allir reikningar verða lagðir fram á komandi aðalfundum svo bókhaldið sé alveg gegnsætt.

Ársskýrslan er samþykkt af meirihluta fundarmanna, 14 með en 5 á móti.

Félagsmaður stingur upp á að nota Reglu sem bókhaldskerfi og styður bókarinn þá tillögu.

3. Kosning í stöðu ritara

Þar sem Sigríður Þóra Gabríelsdóttir náði ekki ⅔ hluta atkvæða á fyrri aðalfundi var kosningin endurtekin og náði hún kjöri með 16 af 19 atkvæðum

4. Breyting á stöðu gjaldkera

Guðný Ólafsdóttir sagði af sér í kjölfar þess að hún var beðin að stíga til hliðar tímabundið á meðan bókhaldið væri skoðað. Stjórn tilnefnir því Önnu Maríu Moestrup til þess að klára kjörtímabilið.

Með komu Önnu Maríu í stjórn vantar nýjan skoðunarmann fyrir ársreikningana.
Arnar Snæbjörnsson býður sig fram og er einróma samþykktur af fundarmönnum.

5. Aganefnd

Tvo nýja félagsmenn vantar inn í aganefnd, önnur ástæðan er vegna þess að stjórn telur ekki ákjósanlegt að hafa félagsmenn með fjölskyldutengsl (Rósa Jónsdóttir og Thelma Rut Stefánsdóttir) innan nefndarinnar. Rósa Jónsdóttir stígur því frá. Hin ástæðan er vegna þess að Anna María Moestrup fer í stöðu gjaldkera og er því ekki gjaldgeng í nefndina.

Guðbjörg Hermannsdóttir og Ragna Vigdís Jónsdóttir eru kosnar inn sem varamenn.

6. Minningarsjóður Þórðar J. Þórissonar.

Helga Karlsdóttir sýningarstjóri kynnir Þórðarsjóðinn og tilgang hans. Stjórn tekur ákvarðanir um hvernig fé sjóðsins skuli varið og tekur við skriflegum umsóknum um styrki úr sjóðnum, metur þær og úthlutar styrkjum.

Stjórn harmar það að ekki hafi verið fylgt reglum í sambandi við innlögn í sjóðinn. Það verður lagfært strax og verður lagt inn á sjóðinn eins og segir til í lögum Kynjakatta, þe. 5% af félagsgjöldum ásamt 5% af hagnaði sýninganna þessa árs.

Stjórn sjóðsins sitja 3 meðlimir. Formaður Kynjakatta ásamt tveim sem kosnir verða á þessum framhaldsaðalfundi.

Marteinn T. Tausen bíður sig fram og er einróma samþykktur af fundarmönnum.
Jósteinn Snorrason býður sig einnig fram og hlýtur einróma samþykki af fundarmönnum.

7. Lokaorð formanns

Guðbjörg Hermannsdóttir fer með nokkur lokaorð og segir að við félagsmenn verðum að fara að vinna betur saman því ef það er ekki gert fer þetta félag að líða undir lok. Hún minnir alla félagsmenn á að við séum í þess vegna ástríðu okkar á köttum og velferð þeirra.

  • Marteinn segir frá að formaður heilbrigðisnefndar FIFé vilji gjarnan hjálpa Kynjaköttum að setja upp tillögu að reglugerðarbreytingu um heilbrigðislög varðandi HCM genið.
  • Félagsmaður spyr hvort mætti eitthvað skoða betur matarkostnað dómara en stjórn segir frá að gera þurfi vel við dómarana sem koma til landsins upp á að fleiri vilji koma hingað því það er mikið ferðalag sem þeir leggja á sig fyrir að koma hingað. Hins vegar getur ný stjórn skoðað það betur.
  • Félagsmaður spyr út í dýralæknakostnað á sýningum og hvort það væri hægt að sleppa þeim til að minnka kostnað. En þetta er í lögum FIFé og Kynjakettir verða að framfylgja þeim. En félagið vill einnig tryggja velferð allra katta á sýningunum.
  • Umræða skapaðist einnig um posaleiguna en félagsmaður spyr hvort betra væri fyrir félagið að kaupa slíkan posa í stað þess að leigja fyrir hverja sýningu. Stjórn mun skoða málið fyrir næstu sýningu.
  • Félagsmaður spyr hversu mörg kreditkort væru í notkun hjá stjórn og eins og staðan er núna er einungis einn stjórnarmeðlimur með kort, þe. sýningarstjórinn Helga Karlsdóttir.

 Fundi er slitið kl. 19.40

 

Tengd skjöl: