Dreymir ketti?

Kettir geta varið 23 stundum á dag í að lúra, dotta, ná sér í kríu eða bara steinsofa. Þeir hafa tvær lífsreglur: "Ef þú ert í vafa, þvoðu þér" og "Ef þér leiðist, sofðu".

Þeir eru meistarar í því að sofa teygðir yfir greinar eða á stólbaki, rúllaðir saman í þéttan snúð eða útglenntir, hrjótandi, á nýhristum sængum. Meðan þeir sofa dragast loppurnar saman eða glennast út, klær fara inn og út, fótleggir og veiðihár kippast til og munnarnir gefa frá sér uml og smáhIjóð. Dreymir þessir litlu loðnu félaga okkar og ef svo er, hvað?

Draumar mannfólksins eru byggðir á hlutum sem við höfum upplifað, séð eða lesið, og kryddaðir með góðum skammti af ímyndunarafli. Kettir muna einnig eftir fyrri reynslu og þeir muna eftir hlutum sem þeir hafa séð, eins og hvernig á að fara inn um kattalúgu, eftir að hafa séð aðra ketti gera það. Atriði úr dýralífsþáttum sem þeir hafa litið á gætu líka birst í draumum þeirra, t.d. atriði með bráð sem er rétt utan seilingar. Þótt það megi virðast undarlegt að eigna köttum mátt ímyndunaraflsins þá er það nú svo að stundum er sem þeir hugsi um vandamál og úrlausnir þess frekar en að prófa sig áfram. Vitað er um tvo hugmyndaríka ketti sem fundu út að besta leiðin til ná upp í hurðarhandfang var ef annar þeirra stóð á baki hins frekar en að hoppa bara að handfanginu. Aðrir eru lagnir við að ná kattarhlerum af hjörunum.

Hvað þýða þessar loppuhreyfingar og uml þegar kötturinn er steinsofandi? Kannski er dreymandinn að rifja upp veiðiferð. Þótt það hafi ekki allir kettir veitt alvöru bráð þá hafa þeir allir erft réttu eðlisávísunina. Margar af þessum loppuhreyfingum líkjast því að kötturinn sé að slá til einhvers eða stökkva á eitthvað. Kettir umla oft eitthvað þegar bráð sleppur frá þeim. Ef maður tekur mið af því hversu oft þeir umla eitthvað upp úr svefni þá eru draumaveiðiferðir, líkt og alvöru, oft árangurslausar.

Ef þú fylgist vel með geturðu mögulega fundið út hvað köttinn þinn er að dreyma. Allar þessar litlu hreyfingar eru vísbendingar um hvað gengur á í litla, loðna höfðinu. Þessir kippir í skottinu gætu þýtt "að elta bráð", "tilbúinn að stökkva" eða "sé eitthvað athyglisvert". Þegar þessu er fylgt eftir með því að loppan kippist til, veiðihárin hreyfast og efrivörin brettist upp (og kannski kemur vígtönn í Ijós) hefur verið séð um bráðina. Tannahljóð og reiðilegar sveiflur með skottinu þýðir sennilega að bráðin slapp.

Ánægjuleg reynsla eins og matartími, kettlingaárin, að vera strokið blíðlega, leika sér í garðinum, flatmaga í sólbaði eða stríða fjölskylduhundinum er sennilega líka hluti drauma. Hversu oft hefur það komið fyrir að þú hefur óvart vakið köttinn þinn og fékkst að launum svip sem sagði: "Mig var að dreyma svo skemmtilega?" Svo dreymir suma ketti áreiðanlega meira lifandi og fjölbreyttari drauma en aðra ketti, rétt eins og mannfólkið.

Meðan við sofum gefur heilinn frá sér efni sem hindrar okkur í því að bregðast við draumum eins og um veruleika væri að ræða, þrátt fyrir að við veltum okkur kannski eða tölum í svefni. Kattarheilinn gerir svipaða hluti. Í tilraunum á rannsóknarstofum, þar sem óheppnir kettir hafa lent í því að átt hefur verið við heilann í þeim, þannig að hann gefur ekki lengur frá sér þetta efni, hafa þeir brugðist við líkt og um raunverulega atburði væri að ræða. Jafnvel kettir sem hafa fæðst á rannsóknarstofum og hafa aldrei veitt bráð á ævi sinni eða einu sinni séð bráð, hafa hegðað sér eins og þeir væru að ná fuglum, elta mýs eða slá til bráðar meðan þá dreymdi.

Kíktu á köttinn meðan hann sefur. Eru þessar loppur að leika sér að garnhnyklinum þinum eða slá til bráðar? Er þetta ánægjumurr eða óánægjublót? Þessi svefnstaða, maginn upp í loft og litlar hrotur, ætli hún bendi til þess að hann dreymi kettlingatíð sína, sólbað eða að vera strokið blíðlega af eiganda sínum? næsta skipti sem þú kemur að kettinum þínum í draumalandinu, fylgstu þá vel með og athugaðu hvort þú getur ekki komist að því hvað hann er að dreyma.

 

Birtist fyrst í fréttabréfi Kynjakatta, 1.tbl. 14.árgangur 2006.