Norwegian Forest Cat

Helstu einkenni

  • Þyngd: Frá ca. 3 - 7kg, fer eftir kyni.
  • Feldur: Frekar síður og mikill.
  • Litur: Allur skalinn. Ekki nein sérstök munstur.
  • Hárlos: Frekar mikið.
  • Skapgerð: Blíðir og góðir, vilja samt ekki láta ráðskast mikið með sig.
  • Líftími: 12-16 ár

Norski skógarkötturinn er hálfsíðhærður köttur sem þarf mjög litla feldhirðu. Hann er stór og sterkbyggður köttur með langan líkama og háfættur, afturfætur eru hærri en framfætur. Skottið er langt og mikið loðið.

Feldurinn er tvískiptur, næst húðinni er ullarkenndur og þéttur feldur en yfir honum liggur hálfsíður glansandi feldur sem hlífir undirfeldinum frá því að blotna.

Í fullum skrúða hefur skógarkötturinn fallegan hálskraga og "buxur" (það eru löng hár á afturfótunum). Mikill munur er á sumar- og vetrarfeldi, á sumrin hverfur kraginn og feldurinn þynnist allur, minnstu breytingarnar verða á "buxunum" og skottinu. Höfuðið á að vera áberandi þríhyrningslaga með beint nef og sterklega höku, augun eru skásett og augnráðið árvökult og villt.

Norskur skógarkötts kettlingurEyrun eru mjög falleg með löngum hárbrúskum sem vaxa út úr eyrunum og hárum efst eins og hjá gaupum. Skógarkötturinn er frekar seinþroska og fresskettirnir eru t.d. ekki fullvaxnir fyrr en um 4 ára aldur, en læðurnar um 3ja ára aldur. Það er mikill stærðarmunur á kynjunum, meðalþyngd hjá læðum er 3,5 - 4,5 kg á meðan fressinn er 5,5 - 7 kg.

Um skapgerð norskra skógarkatta er það helst að segja að þeir eru hugrakkir, gáfaðir og miklar veiðiklær. Þeir eru viljasterkir en aðlagast samt breytingum mjög vel. Norskir skógarkettir eru vinalegir og kunna vel að meta klapp og klór, það er þó varla hægt að kalla þá kjöltuketti þar sem þeir hafa þróaðast úti í náttúrunni og þurfa mikla hreyfingu. Mikilvægt er að þeir hafi góðan klórustaur og gott pláss til að hreyfa sig. Skógarkettir hafa yfirleitt sterk persónuleg einkenni og una sér vel innan um börn og önnur dýr. Oftast tengjast þeir einni ákveðinni manneskju í fjölskyldunni sérstaklega náið og fylgja henni við hvert fótmál. Skógarkettir eru til í mörgum litaafbrigðum og með fjölbreyttum augnlit. Þeir mega samt ekki hafa grímumynstur eins og Síamskettir og Colourpoint persar.

Saga Norsku skógarkattana

Enginn veit hvaðan Norski Skógarkötturinn kom upprunalega, sumir segja að hann sé afkomandi stutthærðra katta sem fluttust með manninum frá Suður Evrópu og norður eftir á forsögulegum tíma. Árhundruðir og náttúrulegt val hefur síðan orðið til þess að bara þau dýr sem gátu aðlagast aðstæðum á nýjum og köldum svæðum lifðu af og þróuðu pels sem þoldi bæði kulda og vatn.

Fullvaxta Norskur skógarkötturÞað er varla nokkur vafi á því að Norski Skógarkötturinn hefur lifað villtur í norsku skógunum næstum því eins lengi og það hefur búið fólk þar. Enginn veit hvenær hann nálgaðist manninn og gerðist húsdýr hjá honum, en hann varð fljótt eftirsóttur músaveiðari í norskum hlöðum og fjósum.

Norskir sjófarendur tóku hann með sér sem skipskött á ferðum sínum til Evrópu og Ameríku. Það er talin skýringin á því hve mikið finnst af síðhærðum húsköttum í þessum löndum, sérstaklega í Normandí. Þessir kettir hafa samt ekki sömu einkenni og Norski Skógarkötturinn í Noregi.

Á síðustu árum hefur komið upp sú tilgáta að á tímum Svarta dauðans í Noregi, þegar margir sveitabæir lögðust í eyði og skógarkötturinn þurfti aftur að flýja til skógar, hafi orðið enn ein aðlögun á útliti hans og þá fyrst hafi pelsinn sem hann er þekktur fyrir í dag þróast.

Það var í kringum árið 1934 að norskir ræktendur byrjuðu að huga að skógarköttunum en það var ekki fyrr en upp úr 1938 að byrjað var tala um þá sem sérstaka tegund.

Þá skall síðari heimstyrjöldin á og allar hugmyndir um ræktun kattanna lögðust af. Það var ekki fyrr en á sjöunda áratugnum að farið var að huga aftur að því að rækta skógarketti sérstaklega. Árið 1976 fékkst alþjóðleg viðurkenning FIFe á tegudinni og eftir það fóru kettirnir að dreifast um allan heim.

Í dag eru norskir skógarkettir í flestum löndum Evrópu auk þess sem þeim fjölgar stöðugt í norður- og suður Ameríku og einnig Asíu.

Vert að benda á að Skógarkatta klúbbur Íslands  hefur verið starfræktur síðan árið 2000 og er skráður ræktunarklúbbur. Síða klúbbsins á Facebook.