Abyssinian og Somali

Helstu einkenni

  • Þyngd: 2,5 - 5kg
  • Feldur: Miðlungs stuttur og fíngerður, somali er með síðari hár og loðið skott.
  • Litur: Rústrauðir með ljósbrúnu eða dökkbrúnu og aðeins yfir í svart, silfur, blátt og liliac.
  • Hárlos: Miðlungs.
  • Skapgerð: Forvitnir, blíðir og góðir.
  • Líftími: 10-16 ár.

Háralitur Abyssiníukattanna og Sómalíukattanna er sá sami í meginatriðum. Liturinn myndast þannig að hárin eru röndótt. Abyssiníukötturinn er með tvær til þrjár litarendur í hverju hári en Sómalíukötturinn er  með mun lengri hár og hefur allt að tíu til ellefu rendur á hverju hári.

Skapgerð Abyssiníu og Sómalíukattanna er alveg einstaklega skemmtileg og á varla sinn líka nema þá helst meðal Síams og Orientalkatta. Abyssiníukettir og Sómalar eru alveg einstaklega forvitnir og eru með nefið ofaní hvers manns koppi. Þeir elta eigendur sína um allt hús og vilja ekki missa af neinu sem gengur á.

Þeir eru einstaklega leikglaðir og ef þeim leiðist kvarta þeir hástöfum við eigandann. Þeir eru meira að segja sagðir vera ræðnari en Síams og Oriental og er þá mikið sagt. Það kemur þó á móti að röddin í Abyssiníukettinum og Sómalanum er mjög lágvær og er sagt að það sé jafnvel erfitt að gera sér grein fyrir hvenær læðan sé breima.

Saga tegundanna

Ein af elstu tegundum heimilskatta eru svokallaðir Abyssiníukettir og síðhærða afbrigðið af þessum köttum sem eru kallaðir Sómalí. Abyssiníukötturinn var fyrst viðurkenndur árið 1882 á kattasýningu í Bretlandi. Talið er að læða sem hét Zuia og var flutt til Bretlands frá Abyssiníu (Eþíópíu) árið 1868 sé formóðir þessarar kattategundar.

Hvort sem það er satt eða ekki þá voru Abyssiníukettir orðnir algeng sjón á kattasýningum á Bretlandseyjum um aldamótin. Fleiri tilgátur voru um tilkomu Abyssiníukattarins og ein þeirra er að hann hafi verið ræktaður upp í tilraun kattaræktenda til að búa til kött með mjög egypsku yfirbragði.

Önnur tillaga er að rómverjar hafi flutt með sér ketti frá Egyptalandi til Bretlandseyja þegar þeir réðu ríkjum á báðum stöðum og sé það því ekki ólíklegt að gen fyrir litamunstrinu sem einkennir Abyssiníuköttinn hafi verið til staðar í stofni breskra katta.

Margar fleiri tilgátur eru um uppruna þessara glæsilegu katta. Allar þessar deilur leiddu til þess að kötturinn var kallaður mörgum nöfnum á Bretlandseyjum. Ýmist var það Rússinn, Spánverjinn, kanínukötturinn eða hérakötturinn. Síðasta nafngiftin var tilkomin vegna þess að feldur Abyssiníukattarins líkist mjög feldi belgískra héra og héldu sumir "fræðimenn" því fram að Abyssiníukötturinn væri upprunninn úr pörun kattar og belgíska hérans! Árið 1903 kom út bók um ketti eftir John Denning þar sem segir meðal annars: "Engin kattategund hefur af eins stórri nafnaflóru að státa eins og Abyssiníukötturinn, þar sem margar þjóðir vilja eigna sér uppruna kattarins og gefa honum nafn lands síns."

Sómalíukettirnir eru síðhært afbrigði Abyssiníukattanna. Þeir eru að flestu leyti eins nema í hárafari. Sómalinn kom fram í fyrsta skipti í kringum 1930. Skipuleg ræktun hófst þó ekki fyrr en um 1960 og var stofnaður ræktunarklúbbur Sómalíuræktenda árið 1972 í Bandaríkjunum. Þeir fengu síðan viðurkenningu árið 1978 og hafa vinsældir þeirra aukist jafnt og þétt og er hann nú mjög vinsæll í Bandaríkjunum og í Evrópu.