Sigríður Heiðberg, minningarorð

Sigrðíður Heiðberg Sigrðíður Heiðberg

Það stóð til að vera með grein um Kattholt í þessu blaði. Ég hafði tekið að mér að skrifa þá grein og átti hún að byggja á viðtali við frú Sigríði Heiðberg, formann Kattavinafélagsins og forstöðukonu Kattholts. Tilefni þeirrar greinar átti að vera að Kattholt verður 20 ára nú í sumar. Þannig fór að ég náði ekki að taka viðtalið við Sigríði. Hún var veik og búin að liggja um nokkurt skeið á sjúkrahúsi og því kunni ég ekki við að vera að ónáða hana með slíku viðtali þegar svo stóð á.

Í stað þess að skrifa grein um Kattholt ætla ég að skrifa nokkur orð um Sigríði og kynni mín af henni, en eins og allir kattavinir vita lést Sigríður að morgni 22. febrúar síðastliðins, eftir erfið veikindi, aðeins 72 ára að aldri. Ég veit ekki alveg hvar skal byrja, en við Sigríður kynntumst um það leiti sem Kynjakettir voru stofnaðir, fyrir rúmum 20 árum.

Sigríður gekk í raðir félagsmanna Kynjakatta við stofnun félagsins og tók þátt í flestum kattasýningum þess. Hún var ekki með kött á fyrstu sýningu Kynjakatta árið 1990, en strax árið eftir kom hún með hinn fræga heimilskött Emil í Kattholti á sýningu í Tónabæ og tók svo þátt í flestum sýningum eftir það.Hún sýndi bæði ketti sem hún átti sjálf og heimilislausa ketti úr Kattholti í von um að sýningargestir ættleiddu þá.

Sigríður hafði sjálf staðið fyrir a.m.k. einni kattasýningu í Gerðubergi í nafni Kattavinafélagsins áður en Kynjakettir voru stofnaðir. Þar voru húskettir af ýmsum stærðum og gerðum auk nokkurra Síamskatta og einnar Persnerskrar læðu. Ég fór á þá sýningu og man að ég sagðist aldrei ætla að fá mér Síamskött því einn Síamskötturinn á sýningunni vældi svo ámátlega með skerandi rómi. Það fór samt svo að skömmu síðar fékk ég mér Síamskött og fór sjálfur að rækta þá tegund og hef verið mikill aðdáandi Síamskatta síðan. Sigríður deildi þessum áhuga á Síamsköttum og sýndi Síamsköttinn sinn, Þyrni, á mörgum sýningum.

Það þarf ekki að segja kattavinum að Sigríður var helsti talsmaður katta á Íslandi um árabil. Hún stýrði starfinu í Kattholti allt frá opnun athvarfsins árið 1991 ásamt því að vera formaður Kattavinafélags Íslands frá 1989 allt til dánardags. Sigríður átti sér þá hugsjón að allir kettir á Íslandi byggju við gott atlæti. Hún taldi að þeir ættu rétt á góðu heimili og vann ötullega að því að hrinda hugsjón sinni í framkvæmd. Hún lét verkin tala með því starfi sem hún leiddi í Kattholti.

Ekki verður komið tölu á þann fjölda katta sem hún hjálpaði. Kettir yfirgefnir af eigendum sínum eða kettir sem villst höfðu að heiman komust í Kattholt og fengu þar umönnun þar til þeir komust aftur heim eða á ný heimili. Oft fór svo að ekki var hægt að finna köttum sem í Kattholt komu ný heimili og þurfti því að taka til þess óyndis ráðs að svæfa þá. Það þótti Sigríði sárt enda dró hún alltaf í lengstu lög að láta svæfa heilbrigð dýr, jafnvel svo að sumum þótti of langt gengið í að halda í þessa ketti sem enginn vildi eiga. En fyrir kattavin eins og Sigríði var þetta alltaf mjög erfið ákvörðun.

Sigríður kom oft fram í fjölmiðlum til að benda á bága stöðu heimilislausra katta á Íslandi og þá illu meðferð sem mörg dýr þurftu að þola. Hún ræddi iðulega um að kattamenning þjóðarinnar þyrfti að komast á hærra plan. Það var sárt fyrir Sigríði að verða vitni að því að árlega hlaupast hundruðir fjölskyldna og einstaklinga á Íslandi undan ábyrg á að sinna heimilisköttunum sínum. Sem betur fer eru flestar fjölskyldur ábyrgar og hugsa vel um dýrin sín, en sá fjöldi einstaklinga eða fjölskyldna sem ekki vitja kattanna sinna eftir að þeir villast að heiman og lenda í Kattholti er með öllu óskiljanlegur. Hvað þá með alla þá sem huga ekki að því að gera kettina ófrjóa til að draga úr offjölgun heimilislausra katta.

Það þarf sterkar taugar til að horfast í augu við þá staðreynd að hjá okkar fámennu þjóð skulu árlega koma á bilinu 600 til 900 heimilislausir kettir í athvarfið í Kattholti og að aðeins lítill hluta þeirra er vitjað af eigendum sínum. Þessar tölur segja meira en mörg orð um það ömurlega ástand sem er í málefnum katta á Íslandi.

Eitt af því sem Sigríður gerði var að benda á hve mikilvægt væri að ráðamenn sveitarfélaga opnuðu augun fyrir því ástandi sem ríkir hjá flestum sveitarfélögum varðandi vegalausa ketti og mikilvægi þess að þau standi við þá ábyrgð sem þeim ber samkvæmt lögum og reglugerðum um dýravernd. Í raun hefur Kattholt að mestu tekið á sig þessa ábyrgð sveitarfélaganna.

Sigríður var með sanni hugsjónakona. Það voru ekki bara kettirnir sem nutu hennar velvilja, heldur starfaði hún einnig í áratugi að bættum hag fanga og fyrrum fanga í gegnum félagskapinn Vernd. Einnig starfaði hún með AA samtökunum og lét gott af sér leiða þar eins og annars staðar þar sem hún lagði hönd á plóg.

Greinahöfundur, Marteinn T. Tausen og Sigríður Heiðberg, ásamt Emil fyrir framan nýbyggt Kattholt

Síðustu misseri þurfti Sigríður oft að dvelja á spítala. Fyrir nokkrum mánuðum heimsótti ég hana á endurhæfingardeildina á Grensás ásamt tveimur öðrum félögum úr stjórn Kattavinafélagsins. En við vildum fá ráð Sigríðar áður en við fórum á fund ráðamanna til að ræða málefni heimilislausra katta. Sigríður lagði okkur línunar, en einnig gaf hún mér gamla mynd sem mér þykir vænt um. Mynd sem var tekin af okkur Sigríði árið 1994 fyrir framan Kattholt þar sem ég er með sjálfan Emil í fanginu. 

Benjamín Dúfa - Ljósmynd: www.steinthorsson.is

Ég náði að heimsækja hana á Landspítalann og færa henni mynd af Benjamín Dúfu sem var einn af uppáhalds köttunum hennar. Sigríður hafði beðið mig að standa fyrir því að hann yrði Ijósmyndaður svo hægt væri að birta myndir af honum í blaðinu. Hún vildi leyfa öðrum að njóta þess að dást af þessum yndislega ketti og sýna verðlaunin sem hann hefur unnið til á sýningum Kynjakatta. Hún hefði orðið stolt af þessari mynd af „Dúfunni" eins og hún kallaði hann oftast.

Árið 2005 á 15 ára afmæli Kynjakatta var Sigríður kjörin fyrsti heiðursfélagi Kynjakatta. Hún var valin vegna óeigingjarns starfs hennar í þágu katta á Íslandi. Óhætt er að fullyrða að það hefur enginn komist með tærnar þar sem Sigríður hafði hælana í baráttu fyrir bættum hag katta á Íslandi.

Það er sorg í heimi kattavina vegna fráfalls Sigríðar, hennar er sárt saknað. Hún var okkur öllum fyrirmynd og er það einlæg von mín að okkur auðnist að halda áfram því góða starfi í þágu katta sem Sigríður stýrði.

 

 

Texti: Marteinn Tryggvason Tausen
Birtist fyrst í fréttabréfi Kynjakatta, 1.tbl. 21.árgangur 2011.