Að kaupa sigurvegara

Ein af spurningunum sem ræktendur heyra hvað oftast er: Hvernig kaupi ég sigurvegara?

Svarið við spurningunni er einfalt: Þú gerir það ekki!!

Það gera sér ekki allir grein fyrir þvi, að það er allt annað að kaupa sýningarkött en að kaupa fallegan kött með gott skap og ættbók. Sýnendur sem átta sig ekki á þessu lenda í því að kaupa hvern köttinn á fætur öðrum því enginn þeirra stenst væntingarnar!

Eagel Storm Bangsi, 10 ára Maine Coon (f. 26.3.2005), margfaldur meistari. Ljósmyndari: Sigurður Ari Tryggvason

Hvernig vel ég rétta kettlinginn?

Sumir ræktendur velja aldrei rétta kettlinginn. Það eru ekki til réttir kettlingar fyrir þá, því þeir kettingar sem valið stendur um, hafa ekki það sem þarf til að gera góðan kött að frábærum sýningarketti.

Hverju leita ég að þegar ég vil kaupa sýningarkött?

Fyrst þarftu að finna kettling sem þér finnst fallegur. Sumum sýnendum finnst sterkarlegar týpur af skógarköttum fallegri en glæsilegu týpurnar. Dómarar eru eins - sumir þeirra túlka staðalinn á einn hátt, aðrir á annan hátt - þannig er engin leið til að kaupa kettling eins og allir dómarar vilja.

Í öðru lagi þarftu að finna kettling sem er í góðu ásigkomulagi. Aldrei kaupa ketling sem er veikur, illa útlítandi eða með mjög þunngan og stuttan feld. Ræktandinn gæti reynt að sannfæra þig um að kettlingurinn hafi bara verið veikur og muni verða mjög stór og fallegur á endanum. Ekki taka þessa áhættu. Kettlingar með þunnan feld og slæma heilsa vinna ekki á sýningum, hversu góðar týpur sem þeir eru.

Skoðaðu ættbók kettlingins sem þú hugleiðir að kaupa. Hafa forfeður í fyrsta ættlið (móðir og faðir) háa titla? Ef nánir forfeður hafa háa titla eru meiri líkur á að þú sért að kaupa góðan kött heldur en ef þeir hafa enga titla. Sumir ræktendur segjast ekki vilja sýna þar sem það sé leiðinlegt. Ekki taka mark á svona staðhæfingum. Flestir ræktendur sýna kettina sína, ef þeir telja að þeir eigi möguleika á stigum. Önnur algeng staðhæfing er sú að þessi eða hinn köttur gæti í raun verið vinningshafi en vilji bara ekki fara á sýningar. Þá er kötturinn ekki sýningarköttur þvi hann er með slæmt skap. Kettir með slæmt skap vinna ekki á sýningum og það sem er áhugavert fyrir þig er að kettlingar undan þeim erfa oft skapið.

Ég er búin að kaupa kettling - hvernig nær kötturinn árangri á sýningum? 

Það er mikilvægt að halda kettlingum í topp standi. Dagleg umhirða og þrifnaður, auk úrvalsfæðis og vítamína skilar sér í topp ástandi kattarins. Ef kötturinn þinn er í skítugu umhverfi og fær lélegt fóður mun hann aldrei ná því takmarki að vera í toppstandi á sýningu. Það er ekki hægt að baða kött daginn fyrir sýningu og búast við að hann líti vel út og ekki hægt að ætlast til að köttur sem þjáist af vítamínskorti hafi fallegan, skínandi feld.

Það er jafn mikilvægt að vera í miklum samskiptum við köttinn. Það er ekki hægt að ætlast til að ketti sem haldið er lokuðum inn í litlu herbergi án samskipta við fólk eða aðra ketti verði góður og Ijúfur daginn sem þér dettur í hug að fara með hann á sýningu.

Þú verður að sjá til þess að kötturinn lifi góðu lífi og fái hæfilegan skammt af áskorunum svo honum leiðist ekki. Ef ketti leiðist er hann ekki upp á sitt besta á sýningum. Ef þú hefur marga ketti verður að tryggja að sýningarkötturinn hafi þægilegt athvarf til að halda góðu geðslagi.

Sigurvegarar í dag - eru þeir fullkomnir?

Nei! - það eru ekki til fullkomnir kettir. Það er greinlega refsað meira fyrir suma galla en aðra. Það breytist frá einum tíma til annars hvaða gallar eru taldir alvarlegastir. Þar að auki eru gallar dæmdir misjafnt eftir löndum. Það er líka mismunandi á milli ræktunarfélaga hvaða gallar eru taldir alvarlegri en aðrir.

Ef allir kettir hafa galla, hvers vegna virðast sumir fæddir til að vinna?

Týpa, ástand, skap og undirbúningur fer stundum saman í frábærum kokteil í einum ketti. Sumir kettir hafa frábært skap, þeir eru sjálfsöruggir og það skín af þeim þegar dáðst er að þeim á sýningum. Þetta eru kettirnir sem vinna. Þeir hafa minniháttar galla sem hverfa í skuggann fyrir persónuleika þeirra og útgeislun!

Samantekt

  • Ef þú kaupir góðan kött getur þú gert margt til að tryggja að kettinum þinum gangi vel á sýningum.
  • Leitaðu upplýsinga hjá öðrum kattaeigendum um hvernig sé best að snyrta köttinn.
  • Spurðu þá sem hafa ketti í frábæru ástandi á sýningum hvaða fóður þeir noti, hvernig aðbúnaður kattanna er og hvernig þeir snyrta þá.
  • Að leggja á sig vinnu til að tryggja toppástand kattarins mun skila sér í fleiri stigum og hærri titlum fyrir köttinn á sýningum.


Texti: Jette Eva Madsen, þýtt af Vilmu Kristínu Guðjónsdóttur
Birtist fyrst í fréttabréfi Kynjakatta, 1. tbl. 19. árgangur, 2009.