Opinn fundur MAST um eftirlitskerfi stofnunarinnar

13. mars 2017

Matvælastofnun heldur fund um eftirlitskerfi stofnunarinnar kl. 9-12 þriðjudaginn 14. mars á Akureyri og föstudaginn 17. mars í Reykjavík. Fundurinn er öllum opinn en er sérstaklega ætlaður matvælaframleiðendum sem stofnunin hefur eftirlit með, bændum sem og fyrirtækjum, til að fara yfir framkvæmd eftirlits, eftirfylgni og birtingu niðurstaðna úr eftirliti.

Á fundinum verður fjallað um uppbyggingu og nýlegar breytingar á skoðunarhandbókum Matvælastofnunar og áhættuflokkun fyrirtækja. Farið verður yfir forsendur og framkvæmd eftirlits og frammistöðuflokkun Matvælastofnunar á fyrirtækjum út frá niðurstöðum eftirlits. Verklag stofnunarinnar við beitingu þvingunar- og refsiúrræða verður kynnt, ásamt upplýsingagjöf út á við um niðurstöður eftirlits og aðgerðir Matvælastofnunar.

Dagskrá

09:00 – 10:00    Skoðunarhandbækur Matvælastofnunar – Jón Ágúst Gunnlaugsson, MAST
10:00 – 10:25    Áhættuflokkun fyrirtækja – Jónína Stefánsdóttir, MAST
10:25 – 10:40    Hlé
10:40 – 10:55    Frammistöðumat á fyrirtækjum – Jón Ágúst Gunnlaugsson, MAST
10:55 – 11:40    Eftirfylgni og beiting þvingunar- og refsiúrræða – Ástfríður Sigurðardóttir, MAST
11:40 – 12:00    Birting á niðurstöðum eftirlits – Jón Ágúst Gunnlaugsson, MAST

Fundargestum gefst kostur á að koma spurningum sínum á framfæri og taka þátt í umræðum. Þátttakendur þurfa ekki að skrá sig og er þátttakan þeim að kostnaðarlausu.

Fundurinn á Akureyri er þriðjudaginn 14. mars kl. 9:00 – 12:00 hjá Hótel KEA að Hafnarstræti 87-89. Fundurinn í Reykjavík er föstudaginn 17. mars kl. 9:00 – 12:00 hjá Markaðsstofu Matvælastofnunar að Stórhöfða 23. Gengið er inn í húsnæði stofnunarinnar að norðanverðu (Grafarvogsmegin).