Áminning til ræktenda

16. janúar 2017

Jasleen Sky Beyrouth með kettlingana sína Jasleen Sky Beyrouth með kettlingana sína

Kynjakettir vilja vekja athygli á því að breyting á reglum Kynjakatta um útgáfu ættbóka tóku gildi núna 1. janúar síðastliðinn. En þessi viðbót var samþykkt á aðalfundi félagsins í fyrra, þann 21. maí 2016.

Vert er að minnast einnig á reglugerð um velferð dýra sem gefin voru út af ríkinu fyrir akkúrat ári síðan, þann 16. janúar 2016, þar sem fram kom að óheimilt er að nota læðu til undaneldis nema hún sé heilbrigð, hafi náð til þess líkamlegum þroska og sé ekki yngri en 12 mánaða.

En taka skal einnig fram að þó að reglugerð frá ríkinu segi að kettlingur verði að hafa náð átta vikna aldri áður en hann er viðskilinn frá móður, þá segja lög FIFé að kettlingur verði að hafa náð 12 vikna aldri og ber okkur í Kynjaköttum að framfylgja þeim reglum.

Breytingar á reglum Kynjakatta um útgáfu ættbóka eru svohljóðandi:

2.1. gr.
Þegar ræktaðir eru Maine Coon kettir:
- Á öllum ræktunardýrum skal framkvæma DNA próf fyrir MyBPC3 geninu (HCM - Hypertropic Cardiomyopathy), nema að sannað sé að báðir foreldrar dýrsins séu ekki berar af MyBPC3.
- Skírteini frá rannsóknarstofu skulu bera skýrt og greinilega örmerki viðkomandi ræktunardýrs.
- Skráningarstjóri skal skrá MyBPC3 stöðu foreldra afkvæma skilmerkilega í ættbók.
- Berar af MyBPC3 má ekki para saman við aðra bera af MyBPC3 (tekur gildi 01.01.2019).

2.2. gr.
Þegar ræktaðir eru Norskir Skógarkettir:
- Á öllum ræktunardýrum skal framkvæma DNA próf fyrir GBE-1 geninu (GSD IV – glycogen storage diease), nema að sannað sé að báðir foreldrar dýrsins eru ekki berar af GSD IV.
- Skírteini frá rannsóknarstofu skulu bera skýrt og greinilega örmerki viðkomandi ræktunardýrs.
- Skráningarstjóri skal skrá GSD IV stöðu afkvæma skilmerkilega í ættbók. - Berar af GSD IV má ekki para saman við aðra bera af GSD IV.
(Þessu var einnig bætt við en er þegar í FIFé lögum.)

2.2. gr.
Þegar ræktaðir eru Ragdoll kettir:
- Á öllum ræktunardýrum skal framkvæma DNA próf fyrir MyBPC3 geninu (HCM - Hypertropic Cardiomyopathy), nema að sannað sé að báðir foreldrar dýrsins eru ekki berar af MyBPC3.
- Skírteini frá rannsóknarstofu skulu bera skýrt og greinilega örmerki viðkomandi ræktunardýrs.
- Skráningarstjóri skal skrá MyBPC3 stöðu foreldra afkvæma skilmerkilega í ættbók. - Berar af MyBPC3 má ekki para saman við aðra bera af MyBPC3 (tekur gildi 01.01.2019).

 

Í reglugerð um velferð dýra er sjötti kafli tileinkaður köttum og hljóðar svo:

VI. KAFLI - Velferð katta.

24. gr. Aðbúnaður og umönnun katta.

Aðbúnaður, umönnun og aðstaða kattar skal hæfa stærð hans, atferli og tegund. Tryggja skal ketti aðgengilegt svefn- og hvíldarpláss sem er laust við raka, dragsúg og hávaða. Undirlag skal vera hreint, þurrt og mjúkt. Ef fleiri en einn köttur eru í rýminu skulu þeir allir hafa aðgang að svefn- og hvíldarplássi samtímis.

Kattarsandkassa skal haldið vel hreinum og skal hann innihalda nægt efnismagn til að köttur geti rótað yfir saurinn.

Sé köttur hafður í búri, stíu eða útigerði skal uppfylla lágmarkskröfur skv. 2. lið viðauka II.

Óheimilt er að skilja kött eftir einan og eftirlitslausan lengur en í einn sólarhring.

Ekki skal tjóðra kött nema í undantekningartilvikum og þá einungis í brjóstól, undir eftirliti og í skamma stund.

Fóðra skal kött að minnsta kosti einu sinni á sólarhring. Ungviði, ketti með aukna orkuþörf og mjólk­andi læður skal fóðra oftar. Tryggja skal að köttur sé í eðlilegum holdum skv. B-lið viðauka III.

25. gr. Undaneldi.

Óheimilt er að nota læðu til undaneldis nema hún sé heilbrigð, hafi náð til þess líkamlegum þroska og ekki yngri en 12 mánaða. Læðu sem tvisvar hefur gengist undir keisaraskurð má ekki nota áfram til undaneldis.

Óheimilt er að nota kött í ræktun sem þekkt er að sé haldinn arfgengum sjúkdómi eða eiginleikum sem geta haft áhrif á heilbrigði afkvæma, skert eðlilegar lífslíkur og/eða lífsgæði þeirra.

26. gr. Umönnun kettlingafullrar eða mjólkandi læðu og ungviðis.

Kettlingafullri læðu skal útbúa hvíldarpláss í rólegu umhverfi sem hún getur lagað sig að tímanlega fyrir got. Skylt er að fylgjast náið með sérhverri kettlingafullri læðu sem komin er að goti. Fyrstu tvær vikurnar eftir got skal nýgotin læða njóta næðis ásamt kettlingum sínum. Fylgjast skal reglu­lega með nýgotinni læðu. Mjólkandi læða skal hafa aðgang að legurými sem er óaðgengilegt fyrir kettlinga.

Búr þar sem læða með kettlinga er höfð skulu uppfylla lágmarkskröfur skv. 2.1 tl. 2. liðar viðauka II.

Í undantekningartilfellum og þá aðeins vegna aðstæðna sem krefjast þess, er heimilt að skilja kettling frá læðu áður en hann hefur náð átta vikna aldri.

Kettlingur yngri en 16 vikna skal að jafnaði ekki skilinn eftir einn og án eftirlits lengur en sex klst. í senn.